Fjörugt jafntefli í stórleiknum

Darwin Nunez í baráttunni við Bruno Fernandes og Willy Kambwala …
Darwin Nunez í baráttunni við Bruno Fernandes og Willy Kambwala í leiknum í dag. AFP/Paul Ellis

Manchester United tók á móti Liverpool í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Old Trafford í Manchester í dag. Liðin buðu upp á markaveislu og endaði leikurinn með fjögurra marka jafntefli, 2:2.

Eftir leikinn er Liverpool í öðru sæti deildarinnar með 71 stig, jafnt Arsenal af stigum en með lakari markatölu. Manchester City er stigi á eftir þegar sjö umferðir eru eftir af mótinu. Manchester United situr enn í 6. sætinu með 49 stig og er átta stigum á eftir Tottenham sem situr í 5. sætinu.

Leikurinn fór fjörlega af stað og var Alejandro Garnacho búinn að koma boltanum í netið á 2. mínútu en Argentínumaðurinn var réttilega flaggaður rangstæður og markið stóð ekki.

Í næstu sókn á eftir fékk Dominik Szoboszlai dauðafæri til að koma Liverpool yfir. Mohamed Salah átti þá flotta sendingu í hlaupaleiðina hjá Ungverjanum sem náði fínu skoti að marki en Andre Onana varði vel í marki United.

Kobbie Mainoo fagnar marki sínu með Casemiro í dag.
Kobbie Mainoo fagnar marki sínu með Casemiro í dag. AFP/Paul Ellis

Szoboszlai fékk aftur sendingu frá Salah á 11. mínútu og lét hann vaða að marki en skot hans fór að þessu sinni rétt yfir markið.

Aftur var Szoboszlai í góðu færi á 18. mínútu þegar hann fékk boltann á markteig heimamanna en skot hans fór þá framhjá markinu eftir flotta fyrirgjöf frá skoska bakverðinum Andrew Robertson.

Liverpool liðið braut ísinn á 23. mínútu þegar Luis Diaz skoraði fyrsta mark leiksins. Robertson tók þá hornspyrnu út í teiginn þar sem Darwin Nunez skallaði boltann áfram á Diaz. Kólumbíumaðurinn var einn og óvaldaður á markteig heimamanna og setti hann boltann í netið framhjá Onana í markinu og gestirnir komnir yfir, 1:0.

Mohamed Salah átti tvö skot með mínútu millibili á 33. og 34. mínútu leiksins en Onana varði þau bæði í horn.

Darwin Núnez fékk sendingu frá Szoboszlai á 35. mínútu og ákvað að láta vaða að marki en skot hans fór rétt yfir markið.

Bruno Fernandes fagnar marki sínu í dag.
Bruno Fernandes fagnar marki sínu í dag. AFP/Paul Ellis

Mínútu síðar fékk Salah sendingu frá Szoboszlai. Egyptinn var staðsettur á markteigshorni heimamanna og lét vaða í fyrsta en skot hans fór yfir markið.

Lítið meira markvert gerðist í fyrri hálfleik og flautaði góður dómari leiksins, Anthony Taylor, til hálfleiks. Aðeins eitt lið var á vellinum í þessum fyrri hálfleik og sést það best þegar litið er til tölfræðinnar en Manchester United hafði ekki átt tilraun að marki gestanna þegar flautað var til hálfleiks.

Allt annað var hinsvegar að sjá til heimamanna í síðari hálfleik og var hann ekki nema fimm mínútna gamall þegar Bruno Fernandes jafnaði leikinn fyrir heimamenn. Jarell Quansah átti þá skelfilega sendingu sem fór beint á Fernandes. Fernandes var staðsettur í miðjuboganum og sá að Caoimhin Kelleher, markvörður Liverpool, var framarlega í markinu og ákvað hann að láta vaða að marki. Það reyndist hárrétt ákvörðun því boltinn sveif yfir Kelleher og söng í netinu og allt orðið jafnt, 1:1.

Mohamed Salah fagnar jöfnunarmarki sínu í dag.
Mohamed Salah fagnar jöfnunarmarki sínu í dag. AFP/Paul Ellis

Heimamenn komust yfir á 67. mínútu með stórkostlegu marki frá Kobbie Mainoo. Enska undrabarnið fékk þá boltann við vítateigshornið og skrúfaði hann boltann upp í samskeytin fjær, óverjandi fyrir Kelleher í marki gestanna og heimamenn komnir yfir, 2:1.

Liverpool fékk vítaspyrnu á 82. mínútu þegar Aaron Wan-Bissaka braut afskaplega klaufalega á Harvey Elliott. Mohamed Salah fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og jafnaði leikinn, 2:2.

Bæði lið reyndu hvað þau gátu að koma sigurmarkinu inn en allt kom fyrir ekki og endaði leikurinn með jafntefli.

Man. United 2:2 Liverpool opna loka
90. mín. Harvey Elliott (Liverpool) á skot sem er varið +7 - Boltinn kemur fyrir markið og er skallað frá. Elliott fær boltann utarlega í teignum og lætur vaða í fyrsta en skotið fer beint á Onana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert