Opnar sig um kókaínfíkn

Danny Murphy í leik með Fulham árið 2013.
Danny Murphy í leik með Fulham árið 2013. AFP

Danny Murphy, fyrrverandi knattspyrnumaður hjá Liverpool, Tottenham Hotspur og Fulham, hefur greint frá því að hann hafi glímt við kókaínfíkn eftir að ferlinum lauk árið 2013.

Í hlaðvarpsþættinum Ben Heath Podcast greinir Murphy frá því að það hafi reynst honum erfitt að lifa án fótbolta.

Hvernig glími ég við vandamál þegar ég hef ekki fótbolta? Vandamál eru ekki vandamál þegar þú ert að spila fótbolta. Þú ert með gleðina og adrenalínið sem halda þér orkuríkum og á tánum.

Þegar þú glímir við vandamál verða þau risavaxin þegar þú ert ekki lengur með fótbolta. Þau eru eins og fjöll. Þegar þú ert að spila er þetta í lagi því þú ert að fá laun og stuðning frá öllum,“ sagði Murphy.

Hugsaði að ég gæti ekki gert neitt án kókaíns

Hann kvaðst hafa átt við eiturlyfjavandamál að stríða í um eitt ár þó áfengisdrykkja hafi ekki reynst vandamál.

„Ég var á kókaíni um skeið og reykti gras. Ég var ekki háður áfengi. Ég var háður kókaíni um tíma.

Á einum tímapunkti hugsaði ég með mér að ég gæti ekki gert neitt án kókaíns, sem var kjaftæði. Auðvitað gat ég það.“

Murphy starfar nú sem sparkspekingur hjá BBC Sport, sem hann segir hafa hjálpað sér þó miðjumaðurinn fyrrverandi hafi ekki upplifað sömu hæðir og þegar hann var að spila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert