Hættið þessum fréttaflutningi

Rúben Amorim hefur þráfaldlega verið orðaður við Liverpool.
Rúben Amorim hefur þráfaldlega verið orðaður við Liverpool. AFP/Gabriel Bouys

Portúgalinn Rúben Amorim segir að fréttir um að hann sé búinn að gera samkomulag við Liverpool um að taka við sem knattspyrnustjóri félagsins í sumar séu rangar.

Forráðamenn Liverpool hafa ekki viljað kannast við að samningar við Amorim væru í höfn og nú hefur hann sjálfur sagt við The Athletic að svo sé ekki.

„Ég hef ekki hitt forráðamenn Liverpool og rætt við þá og það er rangt að samkomulag hafi verið gert. Ég er stjóri Sporting, ég vil vinna titil hérna og hef ekki rætt við annað félag. Hættið þessum fréttaflutningi. Ég mun ekki segja meira um mína framtíð,“ er haft eftir Amorim.

Hann er 39 ára gamall og hefur stýrt Sporting frá árinu 2020. Liðið er með fjögurra stiga forskot á Benfica í baráttunni um portúgalska meistaratitilinn og á leik til góða.

Amorim hefur þegar unnið einn meistaratitil sem stjóri Sporting, árið 2021, og liðið varð bikarmeistari bæði 2021 og 2022. Áður varð hann þrefaldur meistari sem leikmaður Benfica.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert