Liverpool fer í seinni leikinn þremur mörkum undir

Mario Pasalic fagnar því að hafa komið Atalanta þremur mörkum …
Mario Pasalic fagnar því að hafa komið Atalanta þremur mörkum yfir í kvöld. AFP/Darren Staples

Ítalska liðið Atalanta vann óvæntan og hálf ótrúlegan sigur á enska liðinu Liverpool, 3:0, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla á Anfield-vellinum í Englandi í kvöld.

Leikurinn fór fjörlega af stað og gestirnir fengu sannkallað dauðafæri strax á 3. mínútu leiksins. Boltinn datt þá fyrir fætur Mario Pasalic sem var aleinn í markteignum eftir klaufagang í vörn heimamanna en Caoimhín Kelleher varði frá honum með gjörsamlega stórkostlegri vörslu.

Heimamenn voru töluvert meira með boltann það sem eftir lifði hálfleiksins án þess þó að skapa sér neitt rosalega mikið. Harvey Elliott komst næst því að skora þegar hann átti gott skot úr teignum sem fór í slánna, stöngina og út. Þá fékk Darwin Núnez einnig mjög gott færi þegar hann slapp inn fyrir vörn gestanna en setti boltann framhjá markinu.

Það voru hins vegar gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 38. mínútu. Davide Zappacosta komst þá aleinn upp hægri kantinn og fann Gianluca Scamacca í teignum sem átti heldur slakt skot að marki, sem Kelleher missti undir sig og í netið. Illa gert hjá Íranum í marki Liverpool sem átti fínan fyrri hálfleik fyrir utan þetta atvik.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk svo Teun Koopmeiners dauðafæri þegar hann slapp aleinn í gegn en Kelleher lokaði vel á hann og varði. Staðan í hálfleik var því 1:0, gestunum frá Ítalíu í vil.

Leikmenn Atalanta fagna fyrra marki Gianluca Scamacca í kvöld.
Leikmenn Atalanta fagna fyrra marki Gianluca Scamacca í kvöld. AFP/Darren Staples

Liverpool gerði þrefalda breytingu í hálfleik en þeir Andrew Robertson, Dominik Szoboszlai og Mo Salah komu inn fyrir Kostas Tsimikas, Curtis Jones og Harvey Elliott. Það var því alveg ljóst að Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn og vildi fá að sjá eitthvað betra frá sínum mönnum í þeim síðari.

Það færðist kraftur í heimamenn í upphafi síðari hálfleiks og Virgil van Dijk, Mo Salah og Darwin Núnez fengu allir hörkufæri í liði Liverpool á fyrstu 10 mínútum hálfleiksins en Juan Musso var vandanum vaxinn í marki Atalanta. Það var því vægast sagt óvænt þegar gestirnir tvöfölduðu forystu sína á 60. mínútu og aftur var Scamacca á ferðinni. Charles De Ketelaere fékk boltann þá hægra megin og átti flotta fyrirgjöf á Scamacca sem kláraði virkilega huggulega í fyrstu snertingu, innanfótar, niðri í vinstra hornið, þar sem Kelleher kom engum vörnum við.

Eftir markið hélt Liverpool áfram að vera meira með boltann án þess þó að ná að skapa sér nein dauðafæri. Mo Salah kom boltanum í netið á 79. mínútu eftir frábæra sókn heimamanna en flaggið fór á loft og þrátt fyrir skoðun í VAR stóð markið ekki.

Á 83. mínútu fóru gestirnir svo langleiðina með það að ganga frá einvíginu. Szoboszlai missti boltann þá á miðjunni með ömurlegri sendingu, sem Scamacca komst inn í. Hann keyrði af stað fram völlinn og laumaði boltanum svo í gegn á Éderson, sem átti skot sem Kelleher varði en þá var Mario Pasalic mættur fyrstur á frákastið og skoraði í opið mark. 

Reyndist þetta síðasta mark leiksins og er Atalanta því í vægast sagt frábærum málum fyrir seinni leik liðanna sem fer fram í Bergamó-héraði á Ítalíu á fimmtudaginn í næstu viku.

Liverpool 0:3 Atalanta opna loka
90. mín. Dominik Szoboszlai (Liverpool) á skot sem er varið Fær fínt færi hægra megin í teignum en skýtur beint á Musso.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert