Spilar ekki ef hann vill það ekki

Rodri og Pep Guardiola.
Rodri og Pep Guardiola. AFP/Adrian Dennis

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir leikmenn sína vera að glíma við þreytu en að hann geti lítið hvílt leikmenn.

Á fréttamannafundi í dag var hann spurður út í ummæli miðjumannsins Rodri á dögunum, sem sagðist sárlega þurfa á hvíld að halda vegna mikils leikjaálags.

Þetta er einfalt

 „Sjáið bara leikina okkar og þá áttið þið ykkur á þessu. Þetta er einfalt. Hann er okkur svo mikilvægur vegna þeirra gæða sem hann býr yfir.

Ef þú ert með leikmann sem vill ekki spila mun hann ekki spila. Ef hann er örþreyttur, sem getur gerst, þá mun annar leikmaður spila,“ sagði Guardiola.

Þreyttir í undanförnum leikjum

„Ég myndi gjarna vilja hvíla miðverði en við erum ekki með fleiri. Í vináttuleikjum Englands meiddust John Stones og Kyle Walker og þeir geta því ekki fengið hvíld. Við erum í miklum vandræðum.

Mér fannst sem við værum þreyttir í undanförnum leikjum. Við ákveðum á morgun hvað við gerum,“ bætti hann við, en Man. City á leik gegn Luton Town í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert