City er á toppnum í bili – Þrjú sjálfsmörk í leikjum dagsins

Leikmenn City fagna marki Erling Haaland.
Leikmenn City fagna marki Erling Haaland. AFP/Darren Staples

Manchester City fór illa með Luton Town í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn endaði 5:1 fyrir City sem er nú á toppi deildarinnar.

City er á toppnum með 73 stig. Arsenal og Liverpool eru með 71 og eiga leik til góða á City. Arsenal mætir Aston Villa á eftir og Liverpool mætir Crystal Palace á morgun.

Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins tvær mínútur en Daki Hashioka varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark en hann fékk skot frá Erling Haaland í sig og boltinn fór þaðan í netið.

Það var eina mark fyrri hálfleiks en næsta kom ekki fyrr en á 64. mínútu. Það skoraði Mateo Kovacic eftir stoðsendingu frá Julián Álvarez.

Á 74. mínútu braut Fred Onyedinma á Jérémy Doku inni í teig og City fékk víti, Haaland fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Á 82. mínútu skoraði Ross Barkley eina mark Luton í leiknum en hann vann boltann í pressu, fór framhjá Ruben Dias og skoraði.

Doku skoraði svo fjórða mark City á 87. mínútu eftir stoðsendingu frá Josko Gvardiol sem skoraði svo sjálfur fimmta mark City.

Vandræðin halda áfram hjá botnliðinu

Brentfod vann Sheffield United 2:0 en Sheffield er með 16 stig á botni deildarinnar, 10 stigum frá öruggu sæti og útlirið svart. Olle Arblaster skoraði sjálfsmark og Frank Onyeka skoraði annað mark Brentford sem er í 14. sæti.

Burnley og Brighton gerðu 1:1 jafntefli en Burnley komst yfir á 74. mínútu með marki frá Josh Brownhill. Arijanet Muric skoraði svo sjálfsmark sem jafnaði metin

Nottingham Forest gerði 2:2 jafntefli við Úlfana á heimavelli. Matheus Cunha skoraði fyrsta mark leiksins á 40. mínútu en Morgan Gibbs-White jafnaði metin fyrir Forest fimm mínútum síðar. Danilo kom svo Forest yfir á 57. mínútu en Cunha skoraði hans annað mark sem jafnaði metin á 62. mínútu.

Wolves eru í 11. sæti með 43 stig og Forest er í 17. sæti með 26 stig, einu stigi frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert