Meistaradeildardraumur United fjarlægðist enn frekar

Dominic Solanke fer illa með Willy Kambwala í aðdraganda marks …
Dominic Solanke fer illa með Willy Kambwala í aðdraganda marks þess fyrrnefnda í dag. AFP/Adrian Dennis

Fyrri hálfleikurinn fór rólega af stað og voru bæði liðin í smá vandræðum með að ná upp spili. Það var úr nánast fyrsta færi leiksins á 16. mínútu sem Dominic Solanke kom heimamönnum yfir en hann fór þá illa með Frakkann unga, Willy Kambwala, sem byrjaði í vörn United, áður en hann smellti boltanum niðri í vinstra hornið frá vítateigslínu.

Eftir mark Solanke færðist meira líf í leikinn og bæði lið fengu ágætis færi. Á 31. mínútu jafnaði svo Portúgalinn Bruno Fernandes metin fyrir gestina en hann hamraði þá boltanum í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning Marcus Rashford og Alejandro Garnacho.

Heimamenn voru heilt yfir betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og voru ekki lengi að svara fyrir sig. Á 36. mínútu fékk Justin Kluivert boltann aleinn við vinstra vítateigshornið eftir mikinn sofandahátt í vörn United. Hann fékk að vaða nánast óáreittur inn á teiginn, setja boltann á hægri fótinn og hamra honum í nærhornið þar sem André Onana kom engum vörnum við.

Bruno Fernandes fagnar jöfnunarmarki sínu í dag.
Bruno Fernandes fagnar jöfnunarmarki sínu í dag. AFP/Adrian Dennis

Skömmu síðar fékk svo vinstri bakvörðurinn Milos Kerkez, sem færðist upp á vinstri kant eftir að Luis Sinisterra varð að fara af velli vegna meiðsla, tvö mjög góð skallafæri í sömu sókninni. Fyrst skallaði hann boltann í jörðina og upp í þverslánna en hann var svo fyrstur á frákastið en skallaði boltann þá yfir markið.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma fékk Kluivert svo kjörið tækifæri til að bæta við öðru marki. Kerkez átti þá frábæra fyrirgjöf á Kluivert sem setti boltann í fyrstu snertingu á markið en Onana sá við honum með virkilega góðri markvörslu.

Rétt fyrir hálfleiksflautið mátti þó engu muna að gestirnir frá Manchester næðu að jafna metin. Fernandes fékk þá að hlaða í skot af nokkuð löngu færi og smellti boltanum í þverslánna. Hörkuskot og Neto, markvörður Bournemouth, stóð frosinn á línunni og hefði ekki komið neinum vörnum við ef Fernandes hefði sett boltann örlítið neðar.

Justin Kluivert kemur Bournemouth yfir.
Justin Kluivert kemur Bournemouth yfir. AFP/Adrian Dennis

United liðið kom öllu kraftmeira út í seinni hálfleikinn en samt sem áður náði liðið ekkert að skapa sér neitt voðalega mikið. Á 65. mínútu átti þó Kobbie Mainoo skot sem skaust af Ryan Christie og upp í höndina á Adam Smith sem stóð innan teigs. Tony Harrington, dómari leiksins, var ekki í neinum vafa og benti á punktinn og Bruno Fernandes skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni, hans annað mark í leiknum.

Eftir jöfnunarmarkið róaðist leikurinn mikið en þegar leið á leikinn voru það heimamenn sem voru líklegri ef eitthvað var. Á sjöttu mínútu uppbótartíma átti Christie góðan sprett í átt að teignum og Wily Kambwala braut á honum alveg við vítateigslínuna. Harrington benti á punktinn en eftir VAR-skoðun var því breytt og aukaspyrna nokkrum sentimetrum utan teigs niðurstaðan. Hana náðu heimamenn ekki að nýta sér og jafntefli því niðurstaðan.

Eftir leikinn er United í 7. sæti deildarinnar með 50 stig, líkt og Newcastle sem er í 6. sæti. Liðin eru 10 stigum frá Aston Villa og Tottenham sem eru í 4. og 5. sæti. Bournemouth er í 12. sæti deildarinnar með 42 stig.

Bournemouth 2:2 Man. United opna loka
90. mín. Sex mínútum bætt við!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert