Borinn af velli í fyrsta leik

George Earthy í leik með West Ham United í Evrópudeildinni …
George Earthy í leik með West Ham United í Evrópudeildinni í síðasta mánuði. AFP/Ian Kington

Enski knattspyrnumaðurinn George Earthy lék í gær sinn fyrsta leik fyrir West Ham United í ensku úrvalsdeildinni en þurfti þó að fara af velli nokkrum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður í 0:2-tapi gegn Fulham.

Hinn 19 ára gamli Earthy kom inn á sem varamaður á 82. mínútu en aðeins sex mínútum síðar fékk hann þungt höfuðhögg og var borinn af velli á 90. mínútu.

Á heimasíðu West Ham greindi knattspyrnustjórinn David Moyes frá því að Earthy hafi verið með meðvitund og fluttur strax á sjúkrahús eftir að hann var borinn af velli.

Í dag var svo greint frá því að Earthy hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsi og muni nú fylgja reglum ensku úrvalsdeildarinnar um heilahristing áður en hann snýr aftur til æfinga og keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert