Palmer með fernu og jafnaði við Haaland

Cole Palmer fagnar einu af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Cole Palmer fagnar einu af fjórum mörkum sínum í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Cole Palmer skoraði fernu fyrir Chelsea þegar liðið vann geysilega öruggan sigur á Everton, 6:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Chelsea er áfram í níunda sæti deildarinnar þar sem liðið er með 47 stig. Everton er í 16. sæti með 27 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Palmer braut ísinn eftir 13 mínútna leik með laglegu vinstri fótar skoti og fimm mínútum síðar skallaði hann boltann í netið af stuttu færi eftir að Jordan Pickford hafði varið skot Nicolas Jacksons.

Eftir tæplega hálftíma leik fullkomnaði Palmer þrennuna með hægri fótar skoti af löngu færi eftir misheppnaða sendingu Pickfords beint á hann.

Jackson skoraði svo fjórða markið skömmu fyrir leikhlé.

Í síðari hálfleik skoraði Palmer fjórða markið sitt og kom það úr vítaspyrnu á 64. mínútu.

Áður en yfir lauk skoraði hinn tvítugi Alfie Gilchrist sitt fyrsta mark fyrir liðið og sex marka stórsigur Chelsea niðurstaðan.

Palmer er nú búinn að skora 20 mörk í 28 leikjum fyrir Chelsea á tímabilinu líkt og Erling Haaland hefur gert í 26 leikjum fyrir Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert