Verðum að eiga fullkominn endasprett

Andy Robertson dapur í bragði á Anfield eftir að flautað …
Andy Robertson dapur í bragði á Anfield eftir að flautað var til leiksloka gegn Crystal Palace í gær. AFP/Paul Ellis

Andy Robertson, skoski bakvörðurinn hjá Liverpool, segir að liðið þurfi að eiga fullkominn lokasprett á keppnistímabilinu til að eiga möguleika á að enda sem enskur meistari í vor.

Eftir óvænt tap gegn Crystal Palace á heimavelli í gær, 1:0, er Liverpool dottið niður í þriðja sætið með 71 stig. Arsenal tapaði líka á heimavelli, 2:0 gegn Aston Villa, og er með 71 stig og betri markatölu í öðru sætinu.

Manchester City nýtti sér þetta, spilaði reyndar á undan hinum, vann Luton 5:1 og er á toppnum með 73 stig. Liverpool og Arsenal þurfa nú að treysta á að City tapi einhvers staðar stigum.

„Við þurfum að eiga fullkomna leiki það sem eftir er, við megum ekki tapa fleiri stigum og verðum svo að sjá hvað hin tvö liðin gera. Við verðum að vera jákvæðir og munum berjast áfram,“ sagði Robertson við fréttamenn eftir leikinn.

„Nú þurfum við að rífa alla í hópnum upp á ný, því það eru margir leikmannanna miður sín, vegna marktækifæra sem fóru forgörðum, vegna þess að þeir töpuðu boltanum á örlagaríkum augnablikum, og sitthvað fleira. Við rífum okkur upp, spilum aftur á fimmtudag og gefum allt sem við eigum í þetta,“ sagði Robertson.

Liverpool sækir Atalanta heim í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudag, eftir að hafa tapað fyrri leiknum á heimavelli, 3:0.  Síðan spilar liðið þrjá útileiki í röð í úrvalsdeildinni, gegn Fulham, Everton og West Ham en mætir Tottenham heima, Aston Villa úti og Wolves heima í þremur síðustu umferðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert