„Ég elska þetta ferðalag sem við erum á“

„Þetta hefur verið erfitt en síðasti landsleikjagluggi kom á mjög góðum tíma fyrir okkur,“ sagði Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, í samtali við Símann Sport í dag.

Howe, sem er 46 ára gamall, tók við stjórnartaumunum hjá Newcastle sumarið 2021 og hefur náð frábærum árangri með liðið en Newcastle var í harðri fallbaráttu þegar hann tók við liðinu.

Newcastle hafnaði í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og lék því í Meistaradeildinni á tímabilinu en liðið hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir á tímabilinu vegna mikilla meiðsla sem hafa herjað á lykilmenn liðsins.

Ótrúleg síðustu ár

„Síðustu tvö ár hafa verið ótrúleg,“ sagði Howe þegar hann ræddi tíma sinn hjá Newcastle.

„Ég elska þetta ferðalag sem við erum á, hvort sem það var að vera í fallbaráttu eða að berjast á toppi deildarinnar. Við áttum ekki von á því að enda í fjórða sætinu eftir að hafa verið í fallbaráttu árið áður en það var frábært.

Við erum bjartsýnir fyrir framtíðinni hjá félaginu og ætlum okkur stóra hluti á komandi árum,“ sagði Howe meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert