Mikil mistök hjá Guardiola

Cole Palmer með boltann að loknum leik Chelsea og Everton …
Cole Palmer með boltann að loknum leik Chelsea og Everton í gærkvöld. AFP/Glyn Kirk

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hlýtur að líta í eigin barm og segja við sjálfan sig að nú hafi hann gert stór mistök.

Þetta sagði Chris Sutton, knattspyrnusérfræðingur BBC og fyrrverandi leikmaður Chelsea, Celtic, Blackburn og Norwich, eftir magnaðan leik Cole Palmers fyrir Chelsea gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

Palmer skoraði þá fjögur mörk í sigri á Everton, 6:0, og er nú jafn Erling Haaland hjá Manchester City sem markahæsti leikmaður deildarinnar í vetur.

„Pep Guardiola gerir aldrei mistök – en þarna eru ein. Hann hlýtur að horfa á Palmer spila og hugsa með sér: Skollinn, það voru mistök hjá mér að selja hann,“ sagði Sutton.

Palmer, sem er 21 árs gamall, er uppalinn hjá Manchester City sem seldi hann til Chelsea í lok ágúst á síðasta ári fyrir 40 milljónir punda og Palmer samdi við Chelsea til sjö ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert