Sættir sig ekki við framkomu leikmannanna

Cole Palmer býr sig undir að taka vítaspyrnuna á meðan …
Cole Palmer býr sig undir að taka vítaspyrnuna á meðan Conor Gallagher skipar Nicolas Jackson að haga sér skikkanlega. AFP/Glyn Kirk

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, er afar óhress með framkomu leikmanna sinna sem rifust um hver ætti að taka vítaspyrnu í leik liðsins við Everton í gærkvöld.

Staðan var 4:0 fyrir Chelsea þegar liðið fékk vítaspyrnu á 64. mínútu og bæði Nicholas Jackson og Noni Maduke kröfðust þess að fá að taka hana áður en vítaskyttan Cole Palmer fékk boltann í hendurnar og skoraði sitt fjórða mark í leiknum.

„Þetta er leiðinlegt. Ég sagði við leikmennina að ég myndi ekki líða svona framkomu aftur. Ef við viljum vera eitt af stóru liðunum sem berst um titla þurfum við að vera samstilltir sem lið. Þetta má ekki endurtaka sig,“ sagði Pochettino.

Fyrirliðinn Conor Gallagher þurfti að ganga á milli leikmannanna og koma Jackson og Maduke í burt frá vítapunktinum til að Palmer gæti tekið spyrnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert