Chelsea án síns besta manns gegn Arsenal?

Cole Palmer er að glíma við veikindi.
Cole Palmer er að glíma við veikindi. AFP/Glyn Kirk

Cole Palmer, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, gæti misst af stórleik liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Þetta tilkynnti Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, á blaðamannafundi í dag en Palmer er að glíma við veikindi og gat ekki æft með liðinu í dag af þeim sökum.

Liðin mætast á Emirates-vellinum í Lundúnum annað kvöld en Arsenal trónir á toppi deildarinnar með 74 stig, líkt og Liverpool, en Chelsea er með 47 stig í níunda sætinu.

Pochettino greindi frá því á blaðamannafundinum í dag að hann ætti ekki von á því að Palmer yrði með gegn Arsenal.

Palmer, sem er 21 árs gamall, hefur verið langbesti leikmaður Chelsea á tímabilinu og skorað 20 mörk í 28 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en hann er markahæstur í deildinni ásamt Erling Haaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert