Heyrir VAR brátt sögunni til?

Úlfarnir leggja til að hætt verði að styðjast við VAR …
Úlfarnir leggja til að hætt verði að styðjast við VAR myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni. AFP/Darren Staples

Enska knattspyrnufélagið Wolverhampton Wanderers hefur lagt fram formlega tillögu um að enska úrvalsdeildin afnemi notkun myndbandsdómgæslu, VAR, við dómgæslu leikja frá og með næsta tímabili.

The Athletic greinir frá því að tillagan verði tekin fyrir með formlegum hætti á ársfundi ensku úrvalsdeildarinnar þann 6. júní næstkomandi þar sem öll 20 félögin í deildinni greiða atkvæði um hana.

Notkun VAR í úrvalsdeildinni hefur verið ansi umdeild frá því byrjað var að styðjast við hana tímabilið 2019-20 þar sem félög deildarinnar hafa gjarna lýst yfir ósætti yfir því að notkun myndbandsdómgæslu leiði oft ekki til réttrar niðurstöðu.

Eigi tillagan að ná fram að ganga verður 2/3 meirihluti að samþykkja hana, sem eru 14 af 20 félögum ensku úrvalsdeildarinnar.

„Eftir fimm tímabil með VAR í úrvalsdeildinni er kominn tími á uppbyggjandi og gagnrýnar umræður um framtíð hennar. Við teljum að örlítið meiri nákvæmni sé á kostnað anda íþróttarinnar, og þar með ættum við að leggja myndbandsdómgæsluna niður frá og með tímabilinu 2024-25," segir í yfirlýsingu frá Wolves.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert