Baráttan um sæti á erlendu stórmóti heldur áfram

League of Legends er vinsælasti tölvuleikur heims.
League of Legends er vinsælasti tölvuleikur heims. Grafík/Riot Games

Vordeild LoL Major 2021, sem er haldin af Rafíþróttasamtökum Íslands í tölvuleiknum League of Legends, hófst síðustu helgi og eru níu lið skráð til leiks. Deildinni lýkur núna um helgina en tvö efstu liðin úr deildinni vinna sér inn sæti á mótinu Telia Masters þar sem keppt verður við sum af stærstu liðum Norðurlandanna, Írlands, og Bretlands.

Liðin níu sem skráð eru á mótið eru:

  • VITA
  • Sveittir
  • TeamRampageCats
  • Fylkir
  • Pongu Ice
  • XY
  • Excess Success
  • Sansdarotilamenug (einnig þekkt sem Sans)
  • Pongu

Upphaflega skráði liðið RocketFire sig einnig til leiks en endaði þó á að staðfesta ekki þátttöku fyrir tilskilinn tíma. Fór því mótið af stað með níu lið.

Skjáskot úr fyrsta leik viðureignar XY Esports gegn Excess Success
Skjáskot úr fyrsta leik viðureignar XY Esports gegn Excess Success Skjáskot/twitch.tv/xyesportstv

Einhliða laugardagur

Mótið hófst á föstudaginn 4. júní með viðureign liðanna Sveittir og TeamRampageCats en vegna fyrirkomulags mótsins héldu öll önnur lið strax áfram í næstu umferð. Vann Sveittir viðureignina 2-0 og sendi TeamRampageCats þar með í neðri riðil. Var þetta sömuleiðis eina viðureign föstudagsins og má því jafnvel segja að keppnin hafi ekki raunverulega hafist fyrr en daginn eftir.

Á laugardaginn áttu sér stað fjórar viðureignir:
VITA 2-0 Sveittir
Fylkir 2-0 Pongu ICE
XY Esports 2-0 Excess Success
Sans 2-0 Pongu

Eins og sjá má var laugardagurinn dagur nokkuð einhliða viðureigna, en þær fóru allar 2-0 fyrir því liði sem vann. Ekki var keppt meira þann daginn.

Á sunnudaginn áttu sér stað fimm viðureignir:
VITA 2-0 Fylkir
XY Esports 1-2 Sans
Pongu 2-0 TeamRampageCats
Pongu 1-2 Excess Success
Pongu Ice 1-2 Sveittir

Af viðureignunum fimm voru tvær í efri riðli og þrjár í neðri riðli. Með sigrum sínum sendu Vita og Sans lið Fylkis og XY í neðri riðil þar sem þau mæta Excess Success og Sveittir, hvort fyrir sig. Með sigri sínum gegn TeamRampageCats sendi Pongu liðið heim af mótinu áður en Pongu var sjálft slegið út af Excess Success. Pongu Ice fylgdi svo hratt á hæla Pongu með tapi sínu gegn Sveittir.

Skjáskot úr þriðja leik viðureignar XY Esports gegn Sansdarotilamenug
Skjáskot úr þriðja leik viðureignar XY Esports gegn Sansdarotilamenug Skjáskot/twitch.tv/xyesportstv

Helgin fram undan

Morgundagurinn, föstudagurinn 11. júní, verður nokkuð stór í mótinu en þá mætast VITA og Sans í úrslitaviðureign efri riðils og tryggir sigurvegari þeirrar viðureignar sér farmiða á Telia Masters mótið. Þar að auki mætast annars vegar Fylkir og Excess Success og hins vegar XY og Sveittir en þar sem það eru allt viðureignir í neðri riðli spila liðin fjögur fyrir veru sinni í mótinu.

Á laugardaginn 12. júní mætast sigurvegarar fyrrgreindra viðureigna milli annars vegar Fylkis og Excess Success og hins vegar XY og Sveittir í fyrri viðureign dagsins.

Sigurvegari þeirrar viðureignar heldur svo áfram og mætir tapliði úr úrslitaviðureign efri riðils, þ.e. annað hvort VITA eða Sans, í úrslitaleik neðri riðils. Tryggir sigurvegari þeirrar viðureignar sér sömuleiðis farmiða út og er því ekki við öðru að búast en að liðin sýni öll sínar bestu hliðar.

Sunnudagurinn 13. júní er svo lokadagur mótsins, en þá mætast sigurvegarar efri riðils og neðri riðils í úrslitum mótsins, en þrátt fyrir að vera búin að vinna sér inn miða út þurfa liðin tvö enn að kljá út um hvort liðið fer heim með bikarmeistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert