Skráning hafin fyrir næsta Rocket League mót

Auglýsing fyrir Opnu Sumarmótaröðina hjá RLÍS
Auglýsing fyrir Opnu Sumarmótaröðina hjá RLÍS Grafík/Rocket League Ísland

Skráning er nú opin á Challengermode fyrir annað 3v3 mót Rocket League Ísland (RLÍS) í tölvuleiknum Rocket League sem verður haldið á sunnudaginn, 27. júní.

RLÍS heldur úti Opnu Sumarmótaröðinni í sumar eins og mbl.is greindi frá á sunnudaginn.

Sem fyrr segir er mótið næsta sunnudag 3v3 mót, en á slíku móti mætast þrír kepp­end­ur úr hvoru liði í viður­eign­um. Skráning fyrir mótið virðist gera ráð fyrir því að allt að 64 lið komist að og er keppt í tvöfaldri útsláttarkeppni. Lið sem tapa viðureignum fara því niður í neðri riðil og fá annað tækifæri til að halda sér inni á mótinu, en sigurlið neðri riðils mætir sigurliði efri riðils í úrslitaviðureign mótsins.

Einu 3v3 móti af fjórum þegar lokið

Síðasta 3v3 mót Sumarmótaraðarinnar var þann 30. maí og skráðu sig 18 lið á það mót. Var það fyrsta af fjórum áætluðum 3v3 mótum RLÍS í Sumarmótaröðinni. Að mótinu loknu stóðu liðið Gamli, Reiði og Ungi uppi sem sigurvegarar en KR Black voru í öðru sæti og Midnight Bulls í því þriðja. Upplýsingar um það mót má finna á Challengermode síðu mótsins.

Skráningu lýkur á sunnudaginn

Skráning fyrir mótið núna á sunnudaginn fer fram á Challengermode síðu mótsins og lýkur henni klukkan 14 á sunnudaginn. Mótið hefst svo klukkan 17 og má áætla að sýnt verði frá helstu leikjum mótsins á Twitch rás RLÍS, www.twitch.tv/rocketleagueiceland.

Allar helstu upplýsingar um Sumarmótaröð RLÍS má finna á Discord þjóni RLÍS og á Facebook síðu RLÍS.

Viltu taka þátt?

Einstaklingar eða tvíeyki sem hafa áhuga á að taka þátt í mótinu en vantar fleiri leikmenn geta einnig kíkt á Discord þjón RLÍS, en þar má finna rásir sérstaklega til þess gerðar að leita sér að félögum til að spila með.

mbl.is