Sumarmótaröð Rocket League á Íslandi fer vel af stað

Auglýsing fyrir Opnu Sumarmótaröðina hjá RLÍS.
Auglýsing fyrir Opnu Sumarmótaröðina hjá RLÍS. Grafík/Rocket League Ísland

Opna Sumarmótaröð Rocket League Ísland (einnig þekkt sem RLÍS) fer vel af stað en áætlað er að halda átta eins-dags mót í sumar sem skiptast í fjögur 3v3, þar sem þrír keppendur úr hvoru liði keppast í viðureignum, og fjögur samfélagsmót, þar sem samfélagið kýs um fyrirkomulag mótsins.

Þremur mótum er nú þegar lokið og virðist mótaröðin ætla að byrja vel, en góð skráning hefur verið í þau öll.

Fyrsta mót – 16. maí

Fyrsta mót raðarinnar var 3v3 „mix“ mót þar sem einstaklingar skráðu sig og voru dregnir saman í þriggja manna lið sem keppti svo í tvöfaldri útsláttarkeppni. Mótið var haldið 16. maí og lauk með sigri liðs sem hlaut nafnið Krizzto carried FV gegn liði sem hlaut nafnið Krizzt0 carried FV. Munurinn á liðsnöfnunum liggur í því að annað þeirra er með bókstafinn o aftast í Krizzto en hitt tölustafinn 0 aftast í Krizzt0.

Hægt er að finna meiri upplýsingar um mótið á Toornament-síðu mótsins.

Hér má sjá síðustu viðureignir fyrsta mótsins – liðin tvö …
Hér má sjá síðustu viðureignir fyrsta mótsins – liðin tvö í úrslitum voru ekki beint að einfalda hlutina fyrir áhorfendur. Skjáskot/Toornament

Annað mót – 30. maí

Annað mót raðarinnar var 3v3 mót 30. maí með tvöfaldri útsláttarkeppni og lauk því með sigri Gamli, Reiði og Ungi gegn KR Black. Midnight Bulls voru í þriðja sæti.

Hægt er að finna meiri upplýsingar um mótið á Challengermode-síðu mótsins.

Niðurstöður fyrsta mótsins 30. maí.
Niðurstöður fyrsta mótsins 30. maí. Skjáskot/Challengermode

Þriðja mót – 13. júní

Þann 13. júní var svo annað samfélagsmóti raðarinnar en kosninguna vann fyrirkomulagið 3v3 x 2v2 x 1v1. Í því fyrirkomulagi felst að liðin spila best-af-3 viðureign þar sem fyrsti leikur er 3v3, þar sem þrír keppendur úr hvoru liði keppast, en næstu leikir eru 2v2, þar sem tveir keppendur úr hvoru liði keppast, og 1v1, þar sem einungis einn keppandi úr hvoru liði keppir.

Því móti lauk með sigri KR Black gegn KK Smyrill í einfaldri útsláttarkeppni sem fylgdi riðlakeppni en liðin höfðu verið saman í riðli þar sem KK Smyrill vann sér inn 8 stig gegn 6 stigum KR Black.

Hægt er að finna meiri upplýsingar um mótið á Challengermode-síðu mótsins.

RLÍS hefur verið duglegt að streyma frá Twitch-rás sinni, https://www.twitch.tv/rocketleagueiceland/.
RLÍS hefur verið duglegt að streyma frá Twitch-rás sinni, https://www.twitch.tv/rocketleagueiceland/. Skjáskot/twitch.tv/rocketleagueiceland/

Hvað er næst?

Næsta mót raðarinnar verður 3v3 mót sem haldið verður 27. júní. Fyrir þá sem hafa áhuga á því móti eða Sumarmótaröð RLÍS allri er meðal annars hægt að nálgast meiri upplýsingar á Facebook síðu RLÍS.

mbl.is