Hvers vegna er svefn mikilvægur fyrir rafíþróttaleikmenn?

Rafíþróttir eru stundaðar á margskonar tölvur.
Rafíþróttir eru stundaðar á margskonar tölvur. AFP

Segja má að síðustu ár hafi svefn orðið ákveðinn lúxus, færri sofa nóg vegna anna í daglegu lífi. Á meðal þeirra sem eiga á hættu að sofa minna eru rafíþróttaleikmenn og efnishöfundar, en oft snýst vinna þeirra um að vera til taks á netinu allan sólarhringinn.

Atvinnumenn þurfa aga og rútínu

Atvinnumenn í rafíþróttum þurfa, líkt og aðrir atvinnumenn, að hafa mikinn aga þegar kemur að daglegu lífi. Það felur m.a. í sér að skipuleggja tímann vel og fylgja daglegri rútínu sem inniheldur æfingar og aðra hluti sem hafa áhrif á frammistöðu í rafíþróttum. Mikinn aga þarf til að geta sofið nóg og vel, en sé það ekki gert getur það haft neikvæð áhrif á frammistöðu rafíþróttaleikmanna.

Mikið af fólki er mjög þreytt og orkulaust alla daga.
Mikið af fólki er mjög þreytt og orkulaust alla daga. mbl.is/Thinkstockphotos

Lélegur svefn og svefnleysi algeng upptök vandamála

Til þess að ná að nýta daginn sem best og ná að halda daglegri rútínu er mikilvægt að sofa nóg og vel, en svefn hefur mikil áhrif á það sem við gerum í vöku. Ef að rafíþróttaleikmenn upplifa einhver vandamál eru upptökin oftar en ekki tengd lífsstíl leikmanna, hvort sem það tengist svefni, mataræði eða andlegri og líkamlegri heilsu.

Ef einstaklingar uppfylla ekki svefnþörf sína eiga þeir frekar á hættu að verða fyrir líkamlegum meiðslum, fá sjúkdóma og andlega kvilla. Þetta á einnig við um rafíþróttaleikmenn, en það eru til dæmi um rafíþróttaleikmenn sem hafa þurft að binda endi á feril sinn snemma vegna heilsufarslegra kvilla, s.s. líkamlegra meiðsla og andlegra vandamála sem má rekja til óheilbrigðs lífsstíls og svefnleysis. 

Senda leikmenn í svefnrannsókn

Undanfarið hafa rafíþróttafélög á heimsvísu lagt meiri áherslu á svefn leikmanna. Mörg félagslið sem halda úti atvinnumönnum í íþróttinni hafa ráðið svefnþjálfara með það markmið að bæta svefn leikmanna. Einnig hafa sum félaganna sent lið sín í svefnrannsókn til þess að greina og taka á vandamálum séu þau til staðar, ásamt því að reyna að koma í veg fyrir að leikmenn muni upplifa slík vandamál.

Svefn er mikilvægur.
Svefn er mikilvægur. Getty images

Svefn hefur bein áhrif á frammistöðu í rafíþróttum

Rafíþróttaleikmenn þurfa að geta tekið inn mikið af upplýsingum í einu ásamt því að geta brugðist rétt við, oft með því að nota nákvæmar fínhreyfingar. Einnig gegnir samhæfing augna og handa mikilvægu hlutverki í velgengni rafíþróttaleikmanna og -liða, ásamt því að leikmenn þurfa að geta einbeitt sér til lengri tíma. Ef gæði svefns leikmanna eru léleg eða þeir upplifa svefnleysi minnkar viðbragðstími, fínhreyfingar verða lakari og heilastarfsemi hægari. Má því segja að gæði og magn svefns hafi bein áhrif á frammistöðu einstaklinga í rafíþróttum. 

Svefnvandamál algeng

Ekki allir leikmenn eiga við svefnörðugleika að stríða þótt slík vandamál séu algeng nú til dags, en mikilvægt er að grípa inn í áður en það hefur frekari neikvæðar afleiðingar. Flestir kannast við að eiga slæma daga hafi þeir sofið illa, en rafíþróttaleikmenn upplifa það líka og er mikilvægt fyrir alla að það gerist sem sjaldnast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert