Solskjær segir rafíþróttir hafa vaxið hraðar en nokkurn hefði grunað

Ole Gunnar Solskjær fjárfestir í Ulti Agency og þjálfari Manchester …
Ole Gunnar Solskjær fjárfestir í Ulti Agency og þjálfari Manchester United. AFP

Hinn norski Ole Gunnar Solskjær er flestum kunnur sem þjálfari aðalfótboltaliðs Manchester United og fyrrverandi leikmanns, en það sem eflaust fáir vita er að hann hefur fjárfest í rafíþróttafyrirtæki í Noregi. 

Solskjær telur fjárfestingu í rafíþróttum skref í rétta átt

Solskjær fjárfesti í norska fyrirtækinu Ulti Agency í apríl á þessu ári, en Ulti Agency er umboðsskrifstofa fyrir rafíþróttaleikmenn. Solskjær hafði áður sýnt rafíþróttum mikinn áhuga vegna vaxandi vinsælda þeirra og taldi hann skref í rétta átt að fjárfesta í rafíþróttafyrirtæki frá heimalandi sínu.

Umboðsskrifstofa sem aðstoðar rafíþróttaleikmenn

Markmið umboðsskrifstofunnar Ulti Agency er að auðvelda og hjálpa leikmönnum sínum að hámarka markaðsvirði þeirra með traustum hætti. Með því að aðstoða leikmennina geta þeir einbeitt sér meira að því að verða betri í þeirri rafíþrótt sem þeir stunda. Fjölbreyttur hópur starfsmanna Ulti Agency gerir þeim kleift að aðstoða leikmenn með margs konar hluti, s.s. samningaviðræður, markaðssetningu, mannorðsmótun, styrktaraðila, fjármál og lög.

Ánægður með störf Ulti Agency

Solskjær segir að rafíþróttir hafi vaxið hraðar en nokkurn hefði grunað og þær væru orðnar stærri en hann hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér. Honum finnst spennandi að sjá hversu hratt vinsældir rafíþrótta vaxa á heimsvísu og segir Ulti Agency miða hátt til framtíðar. Solskjær er ánægður með störf Ulti Agency, sérstaklega vegna þess að fyrirtækið hjálpar leikmönnum að verða sýnilegri í samfélaginu og gefa þeim tækifæri í rafíþróttaheiminum. 

Búist við aukinni eftirspurn vegna Solskjær

Ulti Agency hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir frá áhugasömum fjárfestum, en búist er við að þeim muni fjölga eftir að Solskjær tilkynnti fjárfestingu sína. Einnig er búist við að viðskiptavinum umboðskrifstofunnar muni fjölga vegna þess hve þekktur Solskjær er.

mbl.is