Körfuboltalið og rafíþróttalið háskóla í Bandaríkjunum mætast

Boise State Esports.
Boise State Esports. Skjáskot/twitter.com/EsportsBSU

Háskólinn Boise State, sem er í Idaho í Bandaríkjunum, heldur skemmtilegan viðburð þar sem körfuboltalið skólans mætir rafíþróttaliðinu í keppni í þremur tölvuleikjum.

Óvenjulegur en skemmtilegur viðburður

Karlalið skólans í körfubolta mun mæta þeim bestu í rafíþróttaliði skólans í hverjum leik. Tveir leikmenn keppa í þremur leikjum, Rocket League, Call of Duty og NBA 2K. Rafíþróttaliði skólans hefur gengið vel frá því að það var stofnað og m.a. unnið til titla í leiknum Overwatch. Það er því ljóst að körfuboltaliðið á erfiða keppni fyrir höndum, en viðburðir sem þessi eru hvort tveggja óvenjulegir og skemmtilegir bæði fyrir áhorfendur og leikmenn.

Verður lýst og streymt á Twitch-rás skólans

Viðburðurinn verður haldinn sunnudaginn 1. ágúst næstkomandi og verður sýnt frá honum í beinni útsendingu. Verður viðburðinum lýst og streymt á Twitch-rás Boise State-háskóla, ásamt því að viðtöl verða tekin við leikmenn í beinni útsendingu.

mbl.is