Dignitas semur við fyrrverandi heimsmeistara

Scrub Killa varð heimsmeistari með liði sínu Renault Vitality.
Scrub Killa varð heimsmeistari með liði sínu Renault Vitality. Skjáskot/youtube.com/RocketLeagueEsports

Kyle „Scrub Killa“ Robertson, 18 ára Skoti, er meðal þekktustu Rocket League-leikmanna í heimi. Hann er genginn til liðs við Dignitas og mun spila með þeim á næsta tímabili í Rocket League Championship Series, sem er besta deild í heimi.

Fyrrverandi heimsmeistari og ungt lið

Scrub Killa varð heimsmeistari í Rocket League árið 2019 er hann spilaði með liði Renault Vitality. Síðan þá hefur hann gengið til liðs við nokkur lið en nú síðast var hann varamaður hjá liði Singularity. 

Leikmannahópur Dignitas samanstendur af ungum leikmönnum, en Scrub Killa mun vera elstur í liðinu. Hjá liði Dignitas verður hann í byrjunarliði ásamt leikmönnunum Joreuz, 16 ára, og ApparentlyJack, 17 ára. Óljóst er hver mun þjálfa liðið að svo stöddu.

Reynsla Scrub Killa getur komið að góðum notum

Það að Scrub Killa hafi skrifað undir samning við liðið hentar vel báðum aðilum. Lið Dignitas varð fyrir blóðtöku í júlímánuði þessa árs er fyrirliði og þjálfari liðsins yfirgáfu það og eftir urðu tveir ungir og óreyndir leikmenn. Reynsla Scrub Killa mun því koma að góðum notum, en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann náð langt á ferli sínum sem spilari. Með von um að nýjasta viðbót Dignitas-liðsins sé af hinu góða.

mbl.is