Heimsmeistaramótið fer fram á Íslandi

Frá mótinu í Laugardalshöll fyrr á árinu.
Frá mótinu í Laugardalshöll fyrr á árinu. Ljósmynd/Riot Games

Riot Games, framleiðendur tölvuleiksins League of Legends, hafa staðfest að heimsmeistaramótið í League of Legends, Worlds 2021, verður haldið í Laugardalshöll í Reykjavík í október og nóvember.

Hefst mótið þann 5. október og er áætlað að úrslitin fari fram 6. nóvember.

Átti upphaflega að fara fram í Kína

Mótið átti upphaflega að fara fram í Kína, en eftir tilkynningu Riot Games um breytta staðsetningu fóru að berast sögusagnir um að mótið myndi fara fram hér á landi.

Nú hefur það verið staðfest og verður þetta í annað sinn á árinu sem stórmót í leiknum League of Legends verður haldið hér á landi.

Stærsti rafíþróttaviðburður í heimi

Heimsmeistaramótið er stærsti rafíþróttaviðburður í heimi, en um 100 milljón manns fylgdust með úrslitaviðureign heimsmeistaramótins árið 2019.

Heildarverðlaunafé mótsins nemur rúmlega 283 milljónum íslenskra króna.

„Við erum mjög spennt fyrir að geta boðið upp á ótrúlega upplifun af heimsmeistaramótinu á Íslandi, þar sem bestu liðin og leikmennirnir fá tækifæri til að keppa,“ segir John Needham, yfirmaður rafíþrótta hjá Riot Games.

„Það verða mjög sterk lið sem munu berjast um heimsmeistaratitilinn í ár, og við getum varla beðið eftir að sjá þá bestu berjast um titilinn.“

Mótið verður haldið í Laugardalshöll.
Mótið verður haldið í Laugardalshöll. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vel heppnuð framkvæmd fyrra móts vó þungt

Vel heppnuð framkvæmd MSI-mótsins vó þungt í ákvörðun Riot Games um að halda heimsmeistaramótið einnig hér á landi, en engin kórónuveirusmit komu upp í tengslum við MSI-mótið sem fram fór síðasta vor. 

Ljóst er að mikil umsvif verða í kringum heimsmeistaramótið, en í heildina er reiknað með að um og yfir 600 starfsmenn og keppendur fylgi mótinu sem mun standa yfir í rúmar fjórar vikur. 

Leikið verður í gömlu höllinni í Laugardalshöllinni, en gert er ráð fyrir að því fylgi lítið rask fyrir aðra starfsemi sem fram fer í Laugardalshöll.

Landkynning og gjaldeyristekjur

„Það er sannur heiður að Riot séu að koma aftur til Íslands með heimsmeistaramótið sitt og er það í fyrsta sinn í sögu leiksins sem allir alþjóðlegu viðburðir ársins fara fram í sama landi. Þar að auki er þetta mikil viðurkenning á góðu starfi Meet in Reykjavík, RÍSÍ og Íslandsstofu í kringum komu Riot fyrr á árinu,“ er haft eftir Ólafi Hrafni Steinarssyni, formanni Rafíþróttasambands Íslands, í tilkynningu.

„Með þessum viðburðum kemur mikil landkynning, gjaldeyristekjur og svo er þetta gífurleg innspýting á áhuga og framtakssemi í rafíþróttasamfélagið á Íslandi.

Þetta styrkir líka stöðu íslenskra rafíþrótta og íslensks leikjaiðnaðar á alþjóðavettvangi sem getur skilað miklu til samfélagsins á komandi árum og áratugum.“

Aukin tækifæri

„Tölvuleikjaiðnaðurinn er risastór á heimsvísu og möguleikarnir nánast óþrjótandi. Á Íslandi hafa orðið til fjölmörg fyrirtæki á undanförnum árum sem eru mikilvægur þáttur í fjórðu stoðinni í útflutningstekjum okkar, hugverkaiðnaðinum,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnanar- og nýsköpunarráðherra.

„Þau tengsl og þekking sem myndast í kringum svona stór alþjóðleg rafíþróttamót munu skila sér til baka í auknum tækifærum í íslenskri nýsköpun, ekki síst á sviði tölvuleikjaiðnaðar.“

Spennandi fyrir rafíþróttir í Reykjavík

„Þetta er auðvitað annað spennandi tækifæri fyrir rafíþróttir í Reykjavík að úrslitakeppnin í heimsmeistaramóti League of Legends verði hér í borginni,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur.

„Skipuleggjendur og aðrir eiga hrós skilið fyrir að koma okkur á kortið í tölvuleikjaheiminum og auðvitað er áhugi erlendra aðila á borginni sem áfangastað fyrir viðburði sína góður vitnisburður fyrir okkur og innviðina sem hér er til staðar.“

Gert ráð fyrir miklum áhuga

„Það er mikill gæðastimpill á fagmennsku íslenskra fyrirtækja sem vinna við framkvæmd viðburða hér á landi að fyrirtæki á borð við Riot Games velji að koma til Íslands með þetta risamót við þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

„Að sama skapi eru þetta spennandi tækifæri fyrir bæði íslenskar rafíþróttir og íslenskan leikjaiðnað, en við gerum ráð fyrir að mikill áhugi verði á mótinu og Íslandi á meðan á því stendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert