Fékk sína fyrstu tölvu við fermingu

Ljósmynd/Aðsend

Snorri Már Óskarsson, einnig þekktur undir rafheitinu Dordingull eða DoddiGG er 22 ára gamall Overwatch leikmaður í rafíþróttaliðinu Böðlar Akraness.

Hann keppti nýlega í Almenna helgarmótinu í Overwatch með Böðlum Akraness og lenti liðið í öðru sæti á mótinu en hann er að æfa mikið sjálfur og með liðinu þangað til næsta mót verður auglýst.

Stefnir á meiri árangur

„Ég reyni alltaf að spila að minnsta kosti klukkutíma á dag, ef ég spila meir en klukkutíma þá eru það annað hvort æfingaleikir með liðinu eða þá að ég sé að spila til að hækka mig í rank,“ segir Snorri en hans helsta markmið er að bæta sig sem rafíþróttamaður og stefnir á að ná sem lengst.

„Mig hefur alltaf langað til að verða atvinnumaður í rafíþróttageiranum og ég ætla að halda áfram að æfa með það markmið í huga.“

Fengið eldri leiki frá fjölskyldu

Fyrsti leikurinn sem Snorri spilaði var annaðhvort Pokemon Red eða Harry Potter á GameBoy segir hann en hann átti mikið af eldri leikjum sem honum hafi verið gefið af foreldrum og frændfólki.

Snorri eignast sína fyrstu PC-tölvu þegar hann fermdist og telur hann fyrsta leikinn sem hann hafi spilað af einhverri alvöru verið Team Fortress 2.

Byrjaði í Team Fortress 2

Snorri dýfir tánum í rafíþróttalaugina þegar hann spilaði Team Fortress 2 og spilaði hlutverk persónunnar „Soldier“ en hann náði ekki langt í þeim leik. Hann taldi sig ekki vera rafíþróttamann fyrr en hann byrjaði að spila Overwatch með rafíþróttaliðinu Selir Selfoss og tók þátt í Almenna Bikarnum í Overwatch með því liði en síðan þá hefur hann gengið til liðs við Böðlar Akraness sem hann spilar enn með í dag.

Sat með þúsundum aðdáenda

Hann minnist þess þegar hann sat í stúku í Póllandi árið 2019, umkringdur þúsundum aðdáendum sem allir komu til þess að horfa á CS:GO Major mótið og þá segist hann hafa áttað sig á því hversu stórar rafíþróttir væru orðnar.

„Ég var alltaf viss um að rafíþróttir myndu verða stórar, en ég sá ekki hversu stórar þær gætu orðið fyrr en ég fór út til Katowice og horfði á lokamótin í CS-GO og Starcraft þar,“ segir Snorri.

Hann telur þó eftirminnanlegustu minninguna sína úr rafíþróttum vera þegar honum var boðið að spila með Böðlum í næsta Almenna bikarnum.

„Á þeim punkti var ég bara einhver random low-Diamond rank DPS spilari sem var kominn í lið með Grandmaster spilurum úr Landsliðinu. Það tók mig smá stund að venjast því að spila á svona háu stigi en ég hef lært ótrúlega margt eftir að ég byrjaði að spila með þeim.“

Hægt er að fylgjast með Snorra á streymisveitunni Twitch undir nafninu dording.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert