„Manni fannst þetta bara draumi líkast“

Guðfinnur Þorvaldsson Gran Turismo Á kappakstursbrautinni daglega
Guðfinnur Þorvaldsson Gran Turismo Á kappakstursbrautinni daglega mbl/Arnþór Birkisson

Guðfinnur Þorvaldsson, betur þekktur sem Guffi í Gran Turismo-samfélaginu á Íslandi, er 37 ára gamall fjölskyldufaðir og rafíþróttamaður en hann keppir í hermikappakstri og heldur utan um mótaröðina GTS Iceland.

Guffi er þó ekki eins og flest fólk þegar kemur að pylsum, en þegar hann snæðir á slíkri þá fær hann sér iðulega kjúklinga-Bratwurst-pylsu.

„Ég er ekki eins og fólk er flest þegar kemur að pylsum,“ segir Guffi í samtali við mbl.is.

„Ég fæ mér kjúklinga-Bratwurst-pylsur og set á þær Fabrikku chili-bernaise-sósu, Sriracha-mæjónes, smá tómatsósu og steiktan lauk!“

Rekur fjórar keppnisdeildir

GTS Iceland er íslenska mótaröðin í Gran Turismo, hermikappakstursleik frá PlayStation, en Guffi setti mótaröðina sjálfur á laggirnar í upphafi ársins 2018. Í dag eru fjórar deildir starfrækar innan mótaraðinnar og keppendur eru frá 50 til 60 manns.

Nokkrum árum eftir að Guffi kom GTS Iceland af stað vinnur hann enn hörðum höndum við utanumhald og skipulag deilda en tekur líka þátt í keppnunum með hinum ökuþórunum.

„Á þessum 5 árum sem við höfum verið starfandi þá hefur hópurinn farið vaxandi jafnt og þétt.“

Þéttur hópur tengist vinaböndum

Þó nokkrir styrktaraðilar styðja við bakið á GTS Iceland og er merkjum þeirra skartað í öllum útsendingum af keppnum. Hægt er að fylgjast með öllum keppnum á YouTube-rás GTS Iceland og er jafnframt sýnt frá Úrvalsdeildinni á Stöð2 Esport.

„Það sem er samt verðmætast er keppendahópurinn sjálfur. Við erum þéttur og góður hópur þar sem myndast hafa góð vinabönd, en margir af þeim sem kepptu í fyrstu keppnunum árið 2018 eru ennþá virkir í Gran Turismo Samfélaginu.“

„Þó það geti verið hiti í mönnum í og eftir keppnir, þá er alltaf stutt í vinskapinn.“

Með leiki á lager

Sjálfur spilar Guffi ýmsa tölvuleiki fyrir utan Gran Turismo, en hvaða leikur verður fyrir valinu fer í rauninni eftir því hvernig stuði hann er í.

Meðal tölvuleikja sem hann spilar mest þessa dagana eru m.a. NBA 2K23, Dredge og Automobilista en tölvuleikinn Final Fantasy VII segir hann áhugaverðan til þess að spila á íslensku.

Hermikappakstursleikurinn Gran Turismo er eini leikurinn sem hann spilar með keppnisbundnum hætti fyrir utan iRacing, sem hann hefur verið virkur í inn á milli.

Þess má geta að þegar hann hefur haft tækifæri til, þá keppir hann á Íslandsmeistaramótinu í iRacing.

Guðfinnur Þorvaldsson Gran Turismo Á kappakstursbrautinni daglega
Guðfinnur Þorvaldsson Gran Turismo Á kappakstursbrautinni daglega mbl/Arnþór Birkisson

Gamla góða NES 

Guffi var bara smá polli þegar hann byrjaði að spila tölvuleiki og þá í „gömlu góðu NES“.

„Eins og margir á mínum aldri þá byrjaði maður að leika sér í gömlu góðu NES, og þar var það auðvitað Super Mario og Duck Hunt sem réðu ríkjum!“

Eins og gefur til kynna var mikið skemmt sér við að spila í NES-tölvunni en þegar næsta tölva tók við urðu stakkaskipti í lífi Guffa, enda kynntist hann sínum uppáhaldsleik á þeim tíma.

Fannst þetta draumi líkast

Aðspurður segir hann eftirminnilegasta atvikið í sambandi við tölvuleiki vera þegar fyrsta PlayStation kom inn á heimilið - og tók við af gömlu góðu NES-tölvunni.

„Stökkið í grafík var rosalegt á þeim tíma, algjör bylting og manni fannst þetta bara draumi líkast.“

„Það var einmitt á þeirri vél þar sem fyrsti Gran Turismo-leikurinn kom út árið 1997, en síðan þá hefur Gran Turismo verið mín uppáhaldstölvuleikja sería,“ segir Guffi en það þýðir að hann hefur í raun spilað Gran Turismo í rúman aldarfjórðung.

Óvart heljarinnar mótaröð

Rafíþróttaferill hans hófst í raun með uppsettningu Gran Turismo-mótaraðinnar, GTS Iceland, fyrir fimm árum síðan. Mótaröðin í heild sinni er jafnframt hans kærasta afrek í sportinu og er hann ofsalega ánægður með hvað hefur ræst úr henni.

„Það var aldrei meiningin að það yrði að einhverju rafíþrótta-batteríi, enda voru rafíþróttir hér á landi ekki mjög langt komnar m.v. hvernig staðan er í dag. Rafíþróttasambandið (RÍSÍ) hafði ekki einu sinni verið stofnað enn þá þegar við vorum að byrja í þessu.“

„Markmiðið var fyrst og fremst að ná saman smá hóp til þess að keyra með, en svo hefur þetta bara undið upp á sig og er orðið að heljarinnar mótaröð í dag, sem ég er þátttakandi í. En umfram allt, þá er þetta fyrir mér fyrst og fremst frábær skemmtun og félagsskapur.

Til viðbótar nefnir hann hve skemmtilegt verkefni það var að vera hluti af íslenska landsliðinu í hermikappakstri, á vegum AKÍS og GT Akademíunar. Þá kepptu þau m.a. gegn Dönum og keyrðu í Evrópu- og Norðurlandamóti í iRacing kappakstursherminum.

Með stýripinnann að vopni

Guffi segir ekki nauðsynlegt að vera með „stýri og tilheyrandi setup“ þar sem hægt er að taka þátt og ná árangri með „stýripinnann að vopni“. 

Aftur á móti segir hann að það sé miklu skemmtilegra að vera með þokkalegt stýri og pedala, enda geri það upplifunina raunverulegri.

„Að vera með þokkalegt stýri og pedala gerir þetta miklu skemmtilegra, ásamt því að hjálpa þér að bæta þig. Ég á góðar græjur sem gerir upplifunina raunverulegri, og þar af leiðandi skemmtilegri.“

Nýjasta viðbótin í græjusafnið eru sýndarveruleikagleraugu frá PlayStation, VR2, sem styður við Gran Turismo 7 að fullu. 

„Það tekur upplifunina upp á næsta þrep og ég sé ekki fram á að keyra öðruvísi héðan í frá!“

Guðfinnur Þorvaldsson Gran Turismo Á kappakstursbrautinni daglega
Guðfinnur Þorvaldsson Gran Turismo Á kappakstursbrautinni daglega mbl/Arnþór Birkisson

Félagsskapurinn gerir gæfumuninn

Þrátt fyrir góðar græjur með nýjustu tækni þá er það félagsskapurinn og harða samkeppnin sem veitir honum mestu ánægjuna í sportinu. Hann segir fátt skemmtilegra en að eiga góðan kappakstur í góðra vinahópi, án þeirra væri þetta ekki svo sérstakt í sjálfu sér.

Hann bendir öllum áhugasömum á Facebook-hóp íslenska Gran Turismo-samfélagsins, GTS Iceland, þar sem öll umræða um mótaröðina fer fram ásamt utanumhaldi en þetta er einnig almennur hópur um Gran Turismo og hermikappakstur hér á landi.

Með því að fylgja þessum hlekk er hægt að slást í för með öðrum ökuþórum á landinu og er lokahóf þeirra á dagskrá síðar í mánuðinum.

„Frábær félagsskapur, hvort sem þú sérð fyrir þér að taka þátt í umræðum, keyra með hópnum, eða bara vera fluga á vegg og fylgjast með.“

Streymir ekki og stefnir ekki á að byrja

Margir rafíþróttamenn og tölvuleikjaspilarar eiga það til að taka upp eða streyma frá sér við að spila. Það gerir Guffi ekki og segir það heldur ekki vera á stefnuskránni hjá sér. Í það minnsta ekki í hefðbundnum skilningi á hugtakinu.

Vanalega sýnir hann þó frá sínu sjónarhorni á YouTube þegar hann er að keppa í GTS Iceland þar sem sumum kunningjum hans finnst gaman að því að sjá hvað er að ske á brautinni frá sjónarhorni Guffa.

Að sama skapi er hefur hann þá séð um útsendingar af keppnum allra deilda GTS Iceland, jafnvel verið í hlutverki lýsanda ásamt öðrum snillingum í hópnum.

Hvetur hann því þá sem hafa áhuga á kappakstri eða hermikappakstri til þess að fylgjast með YouTube-rás GTS Iceland. Rásin er mjög virk og eru beinar útsendingar af keppnum fjórum sinnum í viku, aðra hverja viku.

Njóta lífsins með fólkinu sínu

Fyrir utan það að dunda sér í tölvuleikjum eða hermikappakstri er hann í fullri vinnu samhliða fjölskyldulífinu, en hann og konan hans eiga tvö börn. Frítíminn er því almennt af skornum skammti en hann lætur það ekki stoppa sig.

Hann finnur sér t.d. tíma til þess að fylgjast með Formúlunni og á það til að sogast inn á YouTube að skoða áhugaverð myndbönd. Þar fyrir utan lærði hann ljósmyndun og hefur mjög gaman af því, þó hann hafi ekki sinnt því áhugamáli um nokkurt skeið.

Í sumar ætlar hann fyrst og fremst að njóta lífsins með fjölskyldunni og vinum sínum en hann stefnir einnig á að fara í stangveiði og jafnvel nokkra hringi í golfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert