Alþjóðlegt mót í íslenskum tölvuleik

Grafík/Directive Games/The Machines Arena

Helgina fyrsta til þriðja október verður haldið alþjóðlegt rafíþróttamót í tölvuleiknum The Machines Arena sem er nú í þróun á hjá leikjafyrirtækinu Directive Games.

Sýnt frá mótinu á alheimsvísu

The Machines Arena er fyrsti íslenski leikurinn sem er hugsaður frá grunni sem rafíþróttaleikur og er mótið hluti af þróunarferli leiksins. Þó enn sé nokkuð í að leikurinn komi út er mótið af stórum skala, en Þorgeir F. Óðinsson, framkvæmdarstjóri Directive Games, segir þróun rafíþróttaleiks krefjast þess að keppt sé í leiknum á þróunarferlinu.

Mótið fer fram í glænýrri og glæsilegri rafíþóttamiðstöð Rafíþróttasambands Íslands, Arena og verður sýnt frá því í beinni útsendingu á Twitch og Stöð 2 esports þrjú kvöld í röð ásamt því að vera streymt um heim allan.

Reynslumiklir lýsendur á mótinu

Frægur rafíþróttalýsandi sem hefur mikið lýst í Counter-strike senunni erlendis, James Bardolph hefur staðfest komu sína til landsins og mun hann lýsa mótinu ásamt Tómasi Jóhannssyni „izedi“ og Kristjáni Einari „Monty“ sem hafa lýst leikjum í íslenskri senu rafíþrótta.

Gífurlegt vinningsfé 

Á mótinu munu 16 lið, þar af tvö íslensk takast á í útsláttarkeppni þar sem sigurliðið gengur í burtu með bikar og vinningsfé upp á 10.000 bandarískra dala eða um rúmar 1,25 milljónir íslenskra króna.

Erlendu liðin sem taka þátt eru vel þekkt, sum hver meðal þeirra stærstu á heimsvísu. Endanlegur listi yfir þátttakendur verður birtur á næstu dögum.

Öll augu á Íslandi enn og aftur

Það má búast við því að ísland og hin ört vaxandi rafíþrótta sena verði mikið í sviðsljósinu á samfélagsmiðlum í kringum mótið en bæði keppnisliðin og Bardolph eru með gífurlega marga aðdáendur.

„Mótið verður fín upphitun fyrir rafíþróttaþyrsta Íslendinga í aðdraganda heimsmeistaramótsins í League of Legends sem haldið verður á Íslandi um miðjan október,“ segir Þorgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert