Bönnuð í fimmta skiptið

Skjáskot af myndbandi sem Amouranth birti á YouTube þar sem …
Skjáskot af myndbandi sem Amouranth birti á YouTube þar sem hún tjáir sig um bönnin. Skjáskot/YouTube/Amouranth

Streymirinn Amouranth sem þekkt er fyrir að sleikja heyrnatólin sín og að hegða sér á óviðeigandi hátt hefur verið bönnuð á streymisveitunni Twitch í fimmta sinn en hún hefur um 4,6 milljónir fylgjenda á þeirri veitu.

Amouranth hefur einnig verið bönnuð á samfélagsmiðlinum Instagram sem og á veitunni TikTok.

Fullyrðir að myndböndin séu fjölskylduvæn

Hún birti myndband af sér á YouTube þar sem hún tjáir sig um málið en virðist koma af fjöllum hvað það varðar. Eins telur hún myndböndin sín ekki hafa verið óviðeigandi og jafnframt fullyrðir að þau séu fjölskylduvæn.

Ólíklegt er að hún fái Instagram aðganginn sinn aftur að sögn Amouranth og er hún að vinna í því að fá útskýringu á því hvers vegna Twitch aðgangurinn hennar var bannaður.

mbl.is