Undarlegar truflanir og engin skýring

Undarleg gloppa veldur truflun í beinni útsendingu Vodafone-deildarinnar.
Undarleg gloppa veldur truflun í beinni útsendingu Vodafone-deildarinnar. Skjáskot/Twitch/Rafithrottir

Undarleg gloppa truflaði beina útsendingu Vodafone-deildarinnar í gærkvöldið en það voru Kórdrengir og Vallea sem áttu leik í fyrstu persónu skotleiknum Counter-Strike.

Undarleg truflun 

Lýsendurnir Kristján Einar Kristjánsson og Tómas Jóhannsson voru að ræða saman áður en leikur hófst þegar að skyndilega slökknar á ljósunum og undarleg truflun verður á mynd í skamma stund. 

Bregður lýsendum mjög við þetta og biðja áhorfendur afsökunar á ónæðinu.

Ekki í fyrsta skiptið

Er þetta ekki í fyrsta skiptið sem slík truflun verður á útsendingu, en fyrr í vikunni kom sambærilegt atvik upp í miðju streymi á GameTíví.

Óvíst er hvað kann að valda þessum gloppum en mbl.is hafði samband við Kristján Einar og leitaðist eftir svörum.

Standa ekki á sama

„Ég átta mig ekki alveg á því hvað er í gangi en fróðari menn eru búnir að lofa mér svörum mjög bráðlega. Fyrst fór þetta að gerast í GameTíví á mánudaginn og það var alveg skrítið þvi við sáum þetta bara á mónitorunum okkar, pældum ekkert meira í því í raun eftirá,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

„Svo þegar þetta var farið að gerast aftur í Vodafone-deildar útsendingunni, og ekki nóg með það að þetta truflaði útsendinguna heldur voru ljósin okkar að slá út í leiðinni. Þá hætti manni að standa á sama.“

mbl.is