Blizzard vinnur að nýjum tölvuleik

Ónefndur tölvuleikur frá Blizzard er í vinnslu.
Ónefndur tölvuleikur frá Blizzard er í vinnslu. Grafík/Blizzard

Blizzard Entertainment, fyrirtækið á bakvið heimsfrægu tölvuleikina World of Warcraft, Overwatch og StarCraft tilkynnti í gær að nýr tölvuleikur í nýjum alheim væri í vinnslu.

Blizzard opinberaði að nýr sjálfsbjörgunar og ónefndur tölvuleikur væri í vinnslu og að hann eigi sér stað í glænýjum alheim. Nýji leikurinn verður aðgengilegur fyrir PC-tölvur og verður „fullur af hetjum sem við eigum eftir að hitta, sögum sem enn á eftir að segja og ævintýrum sem enn er ekki búið að lifa“.

Vantar lykilmenn

Í tilkynningunni kemur einnig fram að enn er verið að ráða í störf við vinnslu tölvuleiksins og eru því áhugasamir með þekkingu á þessu sviði hvattir til þess að sækja um. 

Óvíst er hvenær útgáfudagur verður gefinn og þar sem enn er verið að ráða í mikilvæg störf á borð við verkefnahönnun (e. level designs), listamenn og verkfræðinga gefur það augaleið að langur tími mun líða þangað til að útgáfudagur verður settur.

Mismunandi skoðanir

Sumir aðdáendur eru mjög spenntir yfir þessum nýja tölvuleik á meðan aðrir eru á þeirri skoðun að Blizzard ætti að einbeita sér að því að bæta þá tölvuleiki sem eru til nu þegar. Aðrir hafa einnig bent á að það væri gaman að búa til sjálfsbjörgunarleik í alheimum sem nú þegar eru til en það er mjög ólíklegt.

mbl.is