Kærkomið og stórt skref fyrir Íslendinga

Blast Premier mótaröðin í Counter-Strike.
Blast Premier mótaröðin í Counter-Strike. Grafík/BLAST Premier

Atvinnumannadeildin í BLAST Premier-mótaröðinni hófst í dag en þar er keppt í tölvuleiknum Counter-Strike og geta Íslendingar í fyrsta skiptið unnið sér inn þátttökurétt í forkeppni deildarinnar.

Mótaröðin er ein sú stærsta í þessum leik og í gegnum forkeppnir hafa lið víða um heiminn tækifæri til þess að vinna sér inn þátttökurétt í atvinnumannadeildina.

Tækifæri til að sanna sig

Íslendingum er nú boðið að taka þátt í Norðurlandaforkeppninni, Nordic Master, þar sem sigur í Ljósleiðaradeildinni, sem fór nýlega af stað, veitir keppnisrétt í forkepninni.

Er þetta gífurlega stórt stökk fyrir Íslendinga þar sem að við fáum nú að keppa með virkilega stórum liðum og má nefna að rafíþróttaliðin Dignitas og Fnatic tóku þátt í síðustu Norðurlandaforkeppni.

„Þetta þýðir að við erum að fá beina tengingu við atvinnumannakeppninar og nú eru það íslensku liðin sem fá tækifæri til að sanna sig á stóra sviðinu,“ segir Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ), í samtali við mbl.is.

Bein tenging

„Ísland hefur langa keppnishefð í Counter-Strike og hafa spilarar frá Íslandi nokkrum sinnum vakið athygli utan landsteinanna en það hefur aldrei áður verið bein tenging milli keppni á Íslandi og erlendis í Counter Strike,“  segir Ólafur Hrafn Steinarsson formaður RÍSÍ í samtali við mbl.is.

„Sem stærsta rafíþrótt Íslands í mörg ár þá er þetta kærkomið og tímabært skref. Þetta er líka merki um þá frábæru vinnu sem hefur farið fram í uppbyggingu á íslensku keppnisumhverfi í leiknum sem er á heimsmælikvarða. Með frábærum stuðning bakhjarla og þrotlausri vinnu frá mótastjórn, útsendingateyminu og starfsfólki skrifstofu RÍSÍ og metnaði frá spilurum hefur þetta verið gert mögulegt.“

Ólafur tekur einnig fram að þetta sé eitt af þeirra helstu markmiðum, að auka tækifæri fyrir íslenska keppendur erlendis og að þetta sé annað skref í rétta átt í þeim efnum.

mbl.is