Fellur niður þetta vorið

Flatadeildin í League of Legends.
Flatadeildin í League of Legends. Grafík/Flatadeildin

Íslenska mótaröðin í tölvuleiknum League of Legends, Flatadeildin, fer ekki fram í vor samkvæmt tilkynningu frá Hafliða Erni, mótastjóra League of Legends á Íslandi.

Hafliði hefur verið að halda íslensk mót í LoL frá árinu 2012 og hefur hann lagt mikla vinnu í það, fyrst hét deildin í LoL Lenovo Deildin, síðan Vodafone Deildin og að lokum Flatadeildin.

Tók sig til og styrkti sjálfur

Nafnið á deildinni byrjaði sem hálfgert grín, að sögn Hafliða. Það hafði vantað styrktaraðila fyrir deildina en Hafliði tók málin í sínar hendur og gerðist sjálfur styrktaraðili, og fékk þá deildin nafnið Flatadeildin.

Nú ætti að líða að næsta tímabili Flatadeildarinnar en fyrr í vikunni birti Hafliði færslu á Facebook hóp íslenska LoL samfélagsins að þetta vorið færi deildin ekki af stað.

Benti á færeyska deild

„Það hryggir mig að kynna að engin deild verður haldin í League of Legends á Íslandi þetta vorið,“ segir í tilkynningunni. 

Deildin fer ekki af stað vegna skorts á styrktaraðilum og skýrir Hafliði frá því að áhugi hjá leikmönnum og útsendingarteymi dvíni með sjálfboðavinnu.

Hafliði bendir þó áhugafólki á færeyska deild, Effo Deildin, í League of Legends sem hófst í vikunni.

Í samtali við mbl.is segir Hafliði að deildin fari þó líklega af stað í haust en nánari upplýsingar um það berast þegar nær dregur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert