Hvíla í þrjá daga fram á föstudag

Yuma Hashimoto „Dep“, liðsmaður í Zeta Division, heldur á skilti …
Yuma Hashimoto „Dep“, liðsmaður í Zeta Division, heldur á skilti sem segir „NICE“ eða „GOTT“ eftir sigur gegn DRX á Masters Reykjavík mótinu 2022. Ljósmynd/Colin Young-Wolff/Riot Games

Stórmótið Masters Reykjavík hefur verið í fullu fjöri yfir páskana og með því iðar Laugardalshöllin af lífi.

Nokkur af bestu liðum heims keppa á þessu móti en þar er keppt í tölvuleiknum Valorant frá Riot Games. Aðeins nokkrir dagar eru eftir af mótinu sem þýðir að það styttist í krýningu nýs Meistara.

Sneru taflinu við

Í gær voru tvær viðureignir spilaðar en liðin Zeta Division og DRX byrjuðu keppnisdaginn klukkan 17:00 er þau mættu á svið og tóku til leiks.

Fyrr á mótinu hafði DRX unnið Zeta Division 2:0 en eftir mikinn hamagang og spennuþrungna viðureign tókst Zeta Division að snúa við teflinu og gekk af sviðinu eftir 2:1 sigur.

Liðsmenn Zeta Division hafa nú sigrað lið frá EMEA-svæðinu, Brasilíu og Kóreu auk þess að hafa tryggt sér sæti á meðal fjögurra efstu í mótinu. 

Fengu ekki á sig stig

Seinni viðureignin var spiluð klukkan 20:00 en það voru liðin Paper Rex og G2 Esports sem bundu enda á keppnisdaginn.

Bæði liðin spiluðu af kappi en í lok viðureignar var staðan 2:0 Paper Rex í hag. Með því hefur Paper Rex tryggt sér sæti á meðal fjögurra efstu í mótinu en liðið mun mæta Zeta Division í næstu viðureign.

Hér að neðan má horfa á myndband sem sýnir stuttlega frá stemningunni í Laugardalnum í gær.

Hvílt í þrjá daga og keppt á löngum föstudegi

Keppendur hvíla nú í þrjá daga og snúa ekki aftur á sviðið fyrr en á föstudaginn, sem er kaldhæðnislega í anda páskanna. En þá fer fram síðasta umferð þessa holls og spilað verður til úrslitaviðureignar.

Mótið heldur áfram á föstudaginn og verða spilaðar tvær mjög mikilvægar viðureignir þann daginn.

Sigurvegarar þeirra viðureigna munu mætast í úrslitaviðureign mótsins á sunnudaginn en liðin sem tapa munu spila upp á 3. og 4. sætið á laugardaginn.

Vantar ekki upp á pressuna

OpTic Gaming og LOUD mætast í Laugardalshöllinni í fyrri viðureign föstudagsins, klukkan 17:00, og sem fyrr segir mun liðið sem vinnur viðureignina halda áfram í úrslitaleik mótsins.

Zeta Divsion og Paper Rex spila síðan seinni viðureignina, klukkan 20:00, og það lið sem vinnur mun mæta annaðhvort OpTic Gaming eða LOUD í úrslitaviðureign mótsins.

Er því óhætt að segja að spennan sé orðin gríðarleg og það styttist óðum í krýningu nýs Meistara á Masters Reykjavík.

Lukkudýr Paper Rex á Masters Reykjavík 2022 í Laugardalnum.
Lukkudýr Paper Rex á Masters Reykjavík 2022 í Laugardalnum. Ljósmynd/Lance Skundrich/Riot Games
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert