Halda sérstakt kvöld fyrir Valorant-leikmenn

Rafíþróttahöllin Arena í Kópavogi.
Rafíþróttahöllin Arena í Kópavogi. Ljósmynd/Arena

Íslenskir Valorant-leikmenn geta gert sér glaðan dag í Kópavogi næsta miðvikudag þar sem efnt verður til samfélagskvölds fyrir þá sem spila leikinn.

Fjörið hefst klukkan 18:00 og fer fram í rafíþróttahöllinni Arena en á meðan kvöldinu stendur verður boðið upp á sérstök tilboð á veitingastaðnum Bytes sem gilda bæði fyrir mat og drykki.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem samfélagskvöld fer fram á staðnum en þau hafa verið haldin fyrir íslenska leikmenn í Counter-Strike: Global Offensive, Dota 2, World of Warcraft og fleiri leikjum.

Verðlaun og veitingar

Hægt er að kaupa miða í forsölu á 5.500 krónur eða þá 6.500 krónur við innganginn. Með miðanum fylgir drykkur að eigin vali, hvort sem um er að ræða bjór eða óáfengan drykk ásamt þátttökurétt í spurningakeppni og léttu móti í Valorant.

Tölvur verða fráteknar fyrir þá sem kaupa sér miða og geta þeir þá spilað að vild frá klukkan 18:00 fram að lokun.

Á heimasíðu Arena kemur fram að verðlaun verði veitt sigurvegurum spurningakeppninnar en nánari upplýsingar eru að finna þar, í tilkynningunni sjálfri, ásamt hlekk að miðakaupum.

mbl.is