Styttist í nýjan Stórmeistara á Íslandi

Stórmeistaramótið í Counter-Strike: Global Offensive er á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands.
Stórmeistaramótið í Counter-Strike: Global Offensive er á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands

Það styttist óðum í krýningu nýs Stórmeistara í CS:GO á Íslandi, en undanúrslit Stórmeistaramótsins fara fram annað kvöld.

Fjögur lið, tvær viðureignir og engin miskunn.

Undanúrslitin hefjast klukkan 18:15 þegar að rafíþróttaliðin Dusty og Saga mætast í fyrri viðureign kvöldsins. Dusty eru núverandi deildarmeistarar Ljósleiðaradeildarinnar en Saga lenti í sjötta sæti þeirrar deildar. 

Hafa sýnt góðan árangur

Þó að Dusty sé eitt sterkasta lið Íslands um þessar mundir í CS:GO, þá hefur Saga einnig sýnt fram á ótrúlega góðan árangur með því að vinna sig upp í undanúrslit úr Áskorendamótinu. 

Sigurvegari viðureigninnar mun svo halda áfram og mæta Þór eða Vallea á laugardagskvöldið í úrslitaviðureign. Spilað verður upp á Stórmeistara-titilinn sem og þátttökurétt í umspilsmóti fyrir Blast-mótaröðina.

Hörð barátta framundan

Seinna um kvöldið, klukkan 21:00 munu liðin Þór og Vallea stíga á svið og taka við músinni. Þór og Vallea höfðu bæði unnið sér inn þátttöku í Stórmeistaramótinu með árangri sínum í Ljósleiðaradeildinni. 

Þór landaði öðru sæti deildarinnar og Vallea því þriðja. Þekkja liðin því spilahætti hvors annars vel og verður því spennan gríðarleg og baráttan hörð.

Það lið sem vinnur viðureignina mun svo halda áfram og mæta annaðhvort Dusty eða Saga í úrslitaviðureigninni á laugardagskvöldið.

Streymt verður frá öllum viðureignum í beinni útsendingu á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands sem og á Stöð2 Esports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert