Tölvuleikjaspilun eykur greind barna

Rannsóknir sýna að tölvuleikjaspilun barna eykur greind þeirra.
Rannsóknir sýna að tölvuleikjaspilun barna eykur greind þeirra. Ljósmynd/Unsplash/Robo Wunderkind

Vísindamenn við Karolinska Institutet í Svíþjóð hafa rannsakað hvernig skjáhegðun bandarískra barna tengist vitsmunalegum þroska þeirra yfir ákveðinn tíma.

Niðurstaða vísindamannanna var sú að þau börn, sem eyddu meiri tíma í tölvuleikjum að meðaltali, juku greind sína meir en önnur. Hins vegar hafði sjónvarpsgláp hvorki neikvæð né jákvæð áhrif á börnin. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Scientific Reports.

Níu þúsund börn tóku þátt

Börn eyða sífellt meiri tíma fyrir framan skjá. Mikið hefur verið deilt um þau áhrif sem það kunni að hafa á börn. Fleiri en 9.000 bandarísk börn, stúlkur og drengir á aldrinum níu og tíu ára, tóku þátt í rannsókninni.

Börnin voru látin taka sálfræðileg próf til þess að kanna almennan vitsmunaþroska þeirra, eða greind. Börn og foreldrar voru spurð að því hversu löngum tíma var eytt fyrir framan sjónvarp eða við áhorf myndbanda og hversu löngum tíma var eytt í tölvuleikjaspilun og samfélagsmiðla.

Fylgt eftir í tvö ár

Rúmlega 5.000 börnum var fylgt eftir í tvö ár. Að þeim tíma liðnum voru þau látin endurtaka sálfræðilegu prófin. Það gerði rannsóknarmönnum kleift að skoða hvernig frammistaða barnanna í prófunum breyttist frá einni prófunarlotu til annarrar. Bakgrunnur barnanna var einnig tekinn með í reikninginn. Litið var til þátta á borð við menntun foreldra, bakgrunn og fjárhag ásamt erfðafræðilegum þáttum.

Að jafnaði eyddu börn 2,5 klukkustundum á dag við að horfa á sjónvarp, hálftíma á samfélagsmiðlum og klukkutíma við að spila tölvuleiki. Niðurstöðurnar sýndu að þau börn, sem spiluðu meira af tölvuleikjum, juku greind sína um 2,5 greindarvísitölustig ofar meðaltali. Sjónvarpsgláp og samfélagsmiðlar virtust engin áhrif hafa á greind barnanna.

Segir ekki til um aðra þætti

„Við skoðuðum ekki áhrif skjáhegðunar á líkamlega virkni, svefn, líðan eða námsframmistöðu, svo við getum ekkert sagt um það,“ segir Torkel Klingberg, prófessor í hugrænum taugavísindum hjá taugavísindadeildinni í Karolinska Institutet.

„En niðurstöður okkar styðja við þá fullyrðingu að skjátími skerði almennt ekki vitsmunalega getu barna og að tölvuleikjaspilun geti í raun hjálpað til við að auka greind. Þetta er í samræmi við nokkrar tilraunarannsóknir á tölvuleikjaspilun.“

Takmarkast að nokkru leyti

Rannsóknin takmarkast þó aðeins við bandarísk börn. Ekki var gerður greinarmunur á ólíkum tölvuleikjum, sem gerir það að verkum að erfitt er að yfirfæra niðurstöðurnar á börn í öðrum löndum, með aðrar spilavenjur. Auk þess var skjátími barna metinn af þeim sjálfum og foreldrum.

Rannsóknin var fjármögnuð af sænska rannsóknarráðinu og Strategic Research Area Neuroscience (StratNeuro) við Karolinska Institutet. Rannsakendur gefa ekki upp neina hagsmunaárekstra við gerð rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert