Call of Duty á leiðinni á Steam

Call of Duty: Modern Warfare II.
Call of Duty: Modern Warfare II. Grafík/Activision Blizzard

Call of Duty-leikaröðin hefur í mörg ár aðeins verið aðgengileg í gegnum forritið sem hýsir tölvuleiki frá Activision Blizzard, Battle.net.

Tölvuleikurinn Modern Warfare II mun hinsvegar breyta því þegar hann kemur út í október, þá verður hann aðgengilegur á leikjaveitunni Steam.

Fyrsta skiptið í sögu Steam

Hefðbundna útgáfa leiksins mun kosta 70 bandaríkjadali, eða 9.000 íslenskar krónur. Activision hefur verið að rukka um þessa upphæð fyrir Call of Duty-leiki á leikjatölvum undanfarin tvö ár, en þetta er í fyrsta skiptið sem að PC-útgáfan kostar þessa upphæð.

Þar að auki er þetta er í fyrsta skiptið í sögu Steam þar sem að hefðbundin útgáfa stórs leiks kostar slíka fjárhæð.

Verðin hækka

Vault-útgáfan af MWII, sem býr að fleiri fríðindum en sú hefðbundna, kostar 100 bandaríkjadali en það gera 13.000 krónur. Með henni fylgja fríðindi á borð við bardagapassa, búninga og fleira.

Tölvuleikir hafa þó almennt verið að hækka í verði og er því upphæðin fyrir PC-útgáfuna ekkert einsdæmi. Vert er að nefna að endurgerðin af Final Fantasy 7, frá Square Enix kostar 80 bandaríkjadali á Epic Games Store, en það gera 10.300 íslenskar krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert