Afmæli Sonics fagnað með nýjum leik

Sonic Origins kemur út á 31. árs afmæli Sonics.
Sonic Origins kemur út á 31. árs afmæli Sonics. Grafík/SEGA

Hin heittelskaða tölvuleikjapersóna Sonic the Hedgehog á afmæli í dag en hann er orðinn 31. árs gamall. Aðdáendur geta fagnað afmælisdeginum hans með því að kaupa og spila tölvuleikinn Sonic Origins, sem kom einmitt út í dag.

Nokkrir leikir í einum leik

SEGA gaf út Sonic Origins og felur hann í sér endurunnar útgáfur af tölvuleikjunum Sonic the Hedgehog 1 og 2, Sonic 3 & Knuckles og Sonic CD. Leikirnir hafa verið unnir svo að núverandi leikjatölvur styðji við spilun þeirra auk nokkurra endurbóta eins og á t.d. grafíkinni.

Hægt er að velja um nýja jafnt sem eldri leikhami til að spila, til dæmis er sérstakur afmælishamur þar sem leikmenn hafa endalaus líf og geta þá í raun spilað án þess að tapa.

Sonic Origins er fáanlegur á öllum helstu leikjatölvum og hér að neðan er hægt að horfa á kynningarstiklu hans.

mbl.is