Rockstar Games staðfesti alvarlegan leka á GTA 6

Lukás Kanik hreinsaði til í þessarri mynd úr leka GTA …
Lukás Kanik hreinsaði til í þessarri mynd úr leka GTA 6. Grafík/Aðsend

Starfsfólk Rockstar Games vaknaði upp við vondan draum á sunnudaginn, en myndböndum úr Grand Theft Auto 6, sem er enn á snemma á framleiðslustigi, var lekið á netið. Um er að ræða stærsta lekamál tölvuleikjasögunnar, en myndbönd og skjáskot eru í tugatali.

Efninu var fyrst lekið á vefsíðuna GTAforums.com en hefur dreifst svo gott sem út um allt núna. Lekinn sýnir persónur og aðstæður sem koma heim og saman við fréttaflutning frá því fyrr í ár. Sögusviðið er Vice City og spilanlegar persónur verða tvær, þar af ein kona.

„Við erum ótrúlega vonsvikin yfir því að upplýsingar um næsta leik okkar hafi verið deilt með ykkur á þennan hátt,“ segir í yfirlýsingu Rockstar á Twitter.

Óstaðfestur tölvuþrjótur segist hafa meira efni undir höndunum og segist starfsfólk Rockstar Games vera miður sín.

Staðfestir fyrri fréttaflutning

Myndefnið sýnir spilun sem aðdáendur GTA ættu að þekkja vel. Aðalpersónur hleypa af alls kyns byssum, ræna búðir og banka, skjóta út um glugga á bílum og labba um götur Vice City, á meðan gangandi vegfarendur tala út í loftið.

Fyrr í ár greindi Jason Schreier, blaðamaður hjá Bloomberg, frá hreinsun á skrifstofum Rockstar, en fyrirtækið hefur haft á sér vont orðspor hvað varðar framkomu við starfsfólk og eitraða vinnustaðamenningu.

Á sama tíma greindi hann frá því að næsti leikur í Grand Theft Auto seríunni myndi hafa tvo spilanlega karaktera, þar af eina konu, eitthvað sem hefur ekki sést í seríunni hingað til.

Glæpatvíeyki eins og Bonnie og Clyde

Leki helgarinnar staðfestir þetta. Það eru tveir spilanlegir karakterar, ein kona og einn karl, og verður spilað í uppfærðri útgáfu af borginni Vice City, frá samnefndum leik sem kom út árið 2002. Söguþráðurinn verður snýr að einskonar glæpatvíeyki, líkt og Bonnie og Clyde, ásamt bankaránum.

„Ekki að það hafi verið mikill efi um þetta, en ég hef fengið staðfestingu frá heimildarmönnum mínu innan veggja Rockstar að leki helgarinnar varðandi Grand Theft Auto 6 var raunverulegur,“ sagði Schreier á Twitter seinna á laugardeginum.

„Myndefnið er óklárað og snemma á framleiðslustigi, auðvitað. Þetta er einn stærsti leki tölvuleikjasögunnar.“ Á þessum tíma var ekki komin nein yfirlýsing frá Rockstar.

Hreinsað til á internetinu

Þögn Rockstar þýddi þó ekki aðgerðarleysi. Hreinsað var til á GTAforums og öllum færslum sem tengdust lekanum var eytt. Einnig var gert heljarinnar átak til þess að fjarlægja öll myndbönd af YouTube sem innihéldu myndefni úr GTA 6.

Forsvarsmenn Rockstar héldu þögn sinni þangað til á mánudaginn, en þá birtist yfirlýsing á opinbera Twitter-aðgangi fyrirtækisins.

Mun ekki hafa áhrif á framleiðslu

Samkvæmt yfirlýsingunni mun atvikið ekki hafa áhrif á áframhaldandi framleiðslu leiksins né á uppihald hinna tveggja leikjanna, GTA Online og Red Dead Online.

Hafa skal í huga að myndefnið er á grófu framleiðslustigi, sem þýðir að allt sem sést er ekki endilega birtingarmynd þess sem koma skal. Taka skal öllu með smá fyrirvara og líkur eru á að einhverjum punktum verður breytt enn frekar eftir lekann.

Netverjar hafa eytt síðasta sólarhring að kryfja efni lekans og hefur margt áhugavert komið í ljós.

Gerist í nútímanum

Í grunninn er spilunin nokkuð lík GTA V. Sögusviðið leiksins er í nútímanum, sem þýðir að snjallsíminn sem er í fórum spilarans mun spila nokkuð stórt hlutverk. Bílarnir eru svipaðir og í GTA V en vopnakerfið fær smá yfirhalningu.

Það er helst staðfesting á borginni Vice City sem vekur mesta athygli. Netverjar hafa árum saman spáð og spekúlerað í hvaða borg yrði fyrir valinu í næsta leik.

Vice City var nokkuð vinsæl kenning og óstaðfestir lekar fyrir nokkrum árum sýndu spilun á frumstigi í borg sem líktist suðrænu loftslagi. Vice City er byggð á borgum eins og Miami í Flórída.

Skjáskot af leka GTA 6.
Skjáskot af leka GTA 6. Grafík/Aðsend

Útvarpsdagskrá hugsanlega lekið

Mikið af upplýsingunum sem eru á kreiki og margt er enn óstaðfest. Einhverjir hafa nýtt tækifærið og dreift örgustu vitleysu og tengt það við lekann. Til dæmis var „lekið“ lista yfir lög sem áttu að vera á einni útvarpsstöð leiksins. Lög eftir tónlistarmenn eins og Lana Del Rey, Lizzo. Bruno Mars og Dua Lipa voru sýnd í grunnkóðanum, en þetta hefur verið fellt niður sem uppspuni.

Vel getur verið að lög eftir þessa listamenn verði í lokaútgáfu leiksins, en upplýsingarnar í nákvæmlega þessum kóða eru ekki frá Rockstar.

Óstaðfestar hótanir og slæmar afleiðingar

Einstaklingur sem kallar sig Tea Pot segist bera ábyrgð á lekanum, ásamt því að hafa komist inn í öryggiskerfi fyrirtækisins Uber. Tea Pot segist hafa talsvert meira undir höndunum og vildi komast í samband við ráðafólk hjá Rockstar og semja um lausnarfé á efninu.

Tölvuþrjóturinn segist hafa grunnkóða (e. source code) bæði GTA V og GTA 6 og sé tilbúinn til að selja allt klabbið ef Rockstar setur sig ekki í samband og reiðir fram fé til að kaupa efnið til baka. Einnig voru skilaboð frá sama notendanafni sýnd þar sem hakkarinn býður upplýsingar um framleiðslu á leiknum Bully 2 til sölu fyrir um fimmtíu þúsund dollara.

Segir þetta vera martröð fyrir Rockstar

Þó spilarar horfi á lekann sem eiginlega gullnámu, sérstaklega í ljósi þess að níu ár eru síðan síðasti leikur í seríunni kom út, þá eru afleiðingarnar alls ekki góðar fyrir framleiðandann.

„Það eru margar ástæður fyrir því að þetta er martröð fyrir Rockstar,“ skrifaði Jason Schreier á Twitter aðgangi sínum.

„Í fyrsta lagi mun þetta trufla vinnu um óákveðinn tíma. Í öðru lagi munu stjórnendur takmarka fjarvinnu fyrir starfsfólk. Afleiðingar lekans munu ekki verða almennilega ljósar strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert