Drógu sig úr keppninni vegna kynþáttafordóma

Liðið dró sig úr keppni.
Liðið dró sig úr keppni. Skjáskot/DallasUnited

Fótboltaliðið Dallas United hefur dregið sig úr keppninni The Soccer Tournament eftir að leikmaður liðsins var sakaður um kynþáttafordóma í garð andstæðings. Dallas United er í eigu streymarans Edwin Castro sem er þekktur fyrir að streyma fótboltaleiknum FIFA.

Streymir á Twitch

Castro er með yfir fimm milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum og stofnaði Dallas United fyrr á árinu. The Soccer Tournament er fyrsta mótið sem liðið tekur þátt í en lið tefla fram sjö manna byrjunarliðum sem keppa á litlum fótboltavelli.

Verðlaunafé fyrir sigurvegara mótsins eru tæpar 140 milljónir króna. Önnur lið á mótinu eru West Ham, Wrexham, Bandaríska kvennalandsliðið og Borussia Dortmund. Flestir leikmanna mótsins eru áhugamenn í fótbolta eða hafa lagt takkaskóna á hilluna. 

Gengu af vellinum

Atvikið gerðist í leik Dallas United gegn West Ham og sést á myndskeiði þar sem leikmenn West Ham storma að dómaranum og kalla eftir brottvísun leikmanns Dallas United, Rio Ferdinand sem er fyrrum leikmaður í ensku úrvalsdeildinni tók þátt í leiknum og var verulega ósáttur og tók þá ákvörðun að allt West Ham liðið myndi ganga af vellinum.

Mótshaldarinn birti færslu á Twitter-reikningi sínum þar sem niðurstaða málsins var sú að leikmaður Dallas United hafi gerst sekur um kynþáttafordóma og að liðið hefði brotið reglur mótsins. Í kjölfarið ákváðu stjórnendur Dallas United að draga sig úr keppninni.

mbl.is