Svíum dæmdur 3:0 sigur á Dönum á Parken eftir árás á dómara

Johan Elmander og Marcus Allbäck fagna öðru marka Elmander í …
Johan Elmander og Marcus Allbäck fagna öðru marka Elmander í leiknum sögulega í dag. Reuters

Sú ótrúlega uppákoma varð á leik Dana og Svía í undankeppni EM í knattspyrnu á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld að Svíum var dæmdur 3:0 sigur vegna atviks sem átti sér stað rétt fyrir leikslok. Staðan var 3:3 þegar dæmd var vítaspyrna á Dani og þá hljóp áhorfandi inná völlinn og réðst á dómarann. Liðin voru kölluð af velli og skömmu síðar var tilkynnt sú niðurstaða að Svíum hefði verið dæmdur sigur, 3:0.

Svíar komust í 3:0 eftir hálftíma leik með tveimur mörkum frá Johan Elmander og einu frá Petter Hansson. Daniel Agger minnkaði muninn í 3:1 fyrir hlé. Jon Dahl Tomasson skoraði, 3:2, á 62. mínútu og Leon Andreasen jafnaði, 3:3, á 76. mínútu.

Á 88. mínútu var dæmd vítaspyrna á Dani þegar Christian Poulsen sló sænskan leikmann í magann inni í danska vítateignum þegar boltinn var víðsfjarri. Þá skipti engum togum að áhorfandi, klæddur danskri landsliðstreyju, hljóp inná og réðst á Herbert Fandel dómara og sló til hans. Michael Gravgaard, varnarmaður Dana, náði að hindra áhorfandann og draga með því úr högginu. Fandel skaut þegar á ráðstefnu með aðstoðardómurum og fjórða dómara og í framhaldi gengu þeir af velli og sendu liðin til búningsherbergja.

Eftir nokkra stund birtust sænsku leikmennirnir fagnandi inni á vellinum og í sömu andrá var tilkynnt á ljósatöflu vallarins að Svíum hefði verið úrskurðaður sigur, 3:0. Með þessu eru vonir Dana um að komast í úrslitakeppni EM nánast að engu orðnar, auk þess sem þeir eiga væntanlega þunga refsingu yfir höfði sér. Svíar eru hinsvegar komnir á topp riðilsins og standa vel að vígi en þeir taka einmitt á móti Íslendingum í Stokkhólmi á miðvikudaginn kemur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert