Kaupin á Neymar hluti af furðulegri fléttu?

Neymar verður langdýrasti knattspyrnumaður í heimi.
Neymar verður langdýrasti knattspyrnumaður í heimi. AFP

Miklar vangaveltur hafa spunnist upp í kringum möguleg félagaskipti hins brasilíska Neymar frá Barcelona til París SG fyrir algjöra metupphæð í knattspyrnuheiminum. En hvernig er mögulegt að þetta gangi í gegn?

Meðal þeirra miðla sem fjalla um málið er Guardian, en Neymar hefur klásúlu í samningi sínum sem segir að hann geti farið fyrir 222 milljónir evra, rúma 27 milljarða íslenskra króna.

Reglur Evrópska knattspyrnusambandsins um fjárhagslega háttvísi (e. financial fair play) segja að félög megi ekki eyða um efni fram og þess vegna er orðrómur uppi um að gangi kaupin í gegn verði það með ýmsum krókaleiðum.

Mun Parísarliðið ekki borga neitt?

Parísarliðið er í eigu nokkurs konar forríks eignarhaldsfélags frá Katar, og þar liggur hin mögulega flétta. Katar er gestgjafi heimsmeistaramótsins í knattspyrnu árið 2022, og er félagið í kringum PSG meðal þeirra sem koma þar að.

Sagt er að Neymar sjálfur muni fá greiðslu sem nemur 300 milljónum evra til þess að gerast nokkurs konar sendiherra HM 2022 fyrir hönd Katar.

Hann muni svo nota 222 milljónir evra af þeirri greiðslu til þess að borga upp sinn eigin samning hjá Barcelona og mismunurinn verði hin eiginlega greiðsla fyrir sendiherrahlutverkið. Parísarliðið muni því ekki greiða kaupverð fyrir leikmanninn og þar með ekki brjóta reglur UEFA um fjárhagslega háttvísi, en útgjöld félagsins felast í launum hans sem munu nema um 45 milljón evrum á ári.

Verður Neymar sendiherra fyrir HM í Katar?
Verður Neymar sendiherra fyrir HM í Katar? AFP

Greiðslan fyrir Neymar pólitísk skilaboð?

Pólitíkin hefur einnig blandast inn í málið. Katar hefur nú nánast einangrast eftir að nágrannaríkin Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland tóku sig saman um að slíta öll tengsl við ríkið. Ástæða þessa eru meðal annars ásakanir um að Katar styðji við hryðjuverkahópa.

Einu landamæri Katar liggja að Sádi-Arabíu, og þau eru nú að mestu lokuð. Enn er verið að byggja eða endurbæta þá átta knattspyrnuleikvanga sem verða notaðir á HM eftir fimm ár, og með landamærin lokuð er hægara sagt en gert að flytja inn byggingarefni. Það má ekki gleyma að þrátt fyrir ríkidæmi sitt er Katar smáríki sem hefur byggst upp á ógnarhraða, og því er ýmislegt sem hefur setið á hakanum. Dæmi um það eru hafnirnar, sem geta ekki tekið á móti eins miklum þungaflutningum og þarf til þess að undirbúa heilt heimsmeistaramót.

Er þessi samningur við Neymar því einnig sagður vera skilaboð frá Katar til nágrannaríkjanna þess efnis að þrátt fyrir þær viðskiptaþvinganir sem ríkið sitji undir, þá er fjarri því að hendur fjársterkra einstaklinga séu bundnar.

Frá Doha, höfuðborg Katar.
Frá Doha, höfuðborg Katar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert