„Versti leikur ferilsins búinn“

Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson mbl.is/Golli

Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson ætlar sér að bæta fyrir frammistöðu sína frá því um síðustu helgi er lið hans Randers var tekið í bakaríið af FC København á Parken í dönsku úrvalsdeildinni þar sem lokatölur urðu 5:1.

Hannes segir frammistöðu sína í leiknum hafa verið þá verstu á ferlinum og segir margt hafa verið að í þeim leik. Randers mætir Hobro í deildinni á sunnudag.

„Eftir svona leiki þá sleppi ég því að kíkja á hina ýmsu fjölmiðla eða skoða blöðin. Það hjálpar mér ekki,“sagði Hannes þór við TV2 í dag.

„Ég veit það vel að ég verð gagnrýndur ef ég fæ fimm mörk á mig í fjórum marktilraunum. Þá er eitthvað mikið sem hefur farið úrskeiðis,“ sagði Hannes.

„En nú er þessi versti leikur ferilsins búinn. En ég hef verið í þessum leik lengi og veit hvernig maður á að takast á við þetta,“ sagði Hannes.

„Þetta var klárlega einn af mínum verstu leikjum. En svona skítaleikir koma inn á milli. Sem betur fer eru þeir ekki margir. Þegar þeir koma þá þýðir ekkert að hugsa of mikið um þá því maður hefur átt mun fleiri góða leiki,“ sagði Hannes Þór.

Hannes er 33 ára gamall og hefur leikið 54 leiki í dönsku úrvalsdeildinni frá komu sinni til Randers árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert