Ronaldo hetjan í ótrúlegum uppbótartíma

Gianluigi Buffon ræðst að dómara leiksins og fær rautt spjald …
Gianluigi Buffon ræðst að dómara leiksins og fær rautt spjald áður en Real Madrid tryggði sæti í undanúrslitum úr vítaspyrnu. AFP

Dramatíkin getur vart orðið meiri á knattspyrnuvellinum en þegar Real Madrid tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir hádramatíska viðureign gegn Juventus. Vítaspyrna Cristiano Ronaldo í uppbótartíma skaut Real áfram eftir að allt stefndi í að Juventus myndi fullkomna ótrúlega endurkomu sína.

Real vann fyrri leikinn á útivelli 3:0 og þurfti því allt að falla með Juventus í þessum leik. Það gerði það svo sannarlega, því Mario Mandzukic skoraði tvívegis fyrir Juventus í fyrri hálfleiknum og einvígið var orðið galopið. Þegar hálftími var eftir skoraði svo Blaise Matuidi fyrir Juventus, kom ítalska liðinu í 3:0 og jafnaði metin í einvíginu eftir skelfileg mistök frá Keylor Navas í marki Real Madrid.

Bæði lið fengu sín færi eftir þetta en allt stefndi í framlengingu. Á þriðju mínútu uppbótartíma fékk Real Madrid hins vegar vítaspyrnu eftir bakhrindingu í teignum. Goðsögnin Gianluigi Buffon í marki Juventus brjálaðist og var sendur af velli með rautt spjald, í sínum síðasta leik í þessari keppni.

Eftir mikinn glundroða á vellinum fékk Cristiano Ronaldo loks að taka vítið. Hann skoraði af gríðarlegu öryggi og skaut Real Madrid áfram í undanúrslitin, samanlagt 4:3 fyrir Real Madrid.

Fjörið var heldur minna þegar Bayern München og Sevilla gerðu markalaust jafntefli, en Bayern vann einvígið samanlagt 2:1. Bayern og Real Madrid bættust því í hóp Liverpool og Roma sem verða í hattinum þegar dregið er til undanúrslita.

Real Madrid 1:3 Juventus opna loka
90. mín. Við erum þremur mínútum frá framlengingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert