Ronaldo sendir frá sér yfirlýsingu

Cristiano Ronaldo horfði á Juventus vinna Young Boys í Meistaradeildinni …
Cristiano Ronaldo horfði á Juventus vinna Young Boys í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Portúgalinn var í banni í leiknum. AFP

Cristiano Ronaldo sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í dag þar sem hann harðneitar að hafa nauðgað Kathryn Mayorga. Lögreglan í Las Vegas tók á dögunum upp að nýju rannsókn á kynferðislegu ofbeldi sem Mayorga sakar Ronaldo um. 

Mayorga segir Ronaldo hafa ráðist á hana og nauðgað henni í hótelherbergi í borginni árið 2009. Der Spiegel birti á dögunum ítarlegt viðtal við Mayorga, þar sem hún greindi frá atvikinu í smáatriðum. Ronaldo hyggst höfða mál gegn þýska tímaritinu. 

Samkvæmt Der Spiegel borgaði Ronaldo 375 þúsund Bandaríkjadali gegn því að Mayorga kæmi ekki fram með ásakanir á hendur honum á opinberum vettvangi. Ronaldo hafnar hins vegar öllum ásökunum. 

„Ég harðneita ásökununum. Nauðgun er viðbjóðslegur glæpur sem er gegn öllu sem ég trúi á. Auðvitað vil ég hreinsa nafn mitt, en ég neita að mata fjölmiðla sem vilja koma sér á framfæri á minn kostnað. Samviska mín er hrein og bíð ég því rólegur eftir að málinu ljúki,“ skrifaði Portúgalinn á Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert