Þjálfari Ara handtekinn

Peter Maes, þjálfari Lokeren.
Peter Maes, þjálfari Lokeren.

Peter Maes, þjálfari belgíska knattspyrnuliðsins Lokeren, var í dag handtekinn í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu svikamáli í belgíska fótboltanum þar sem talið er að reynt hafi verið að hagræða úrslitum leikja.

Rúnar Kristinsson, þáverandi þjálfari Lokeren, var látinn víkja til að Maes gæti komið aftur til félagsins í ágúst 2017, en hann hafði áður stýrt liðinu frá 2010 til 2015 og þjálfað lið Genk í millitíðinni.

Umboðsmaðurinn Dejan Vejlkovic var handtekinn fyrir nokkru vegna málsins, ásamt eiginkonu sinni og fleirum, og talið er að handtakan á Maes í dag tengist honum en Vejlkovic er m.a. umboðsmaður þjálfarans. Vejlkovic er talinn hafa nýtt sér það að hafa verið með nokkra leikmenn á sínum vegum í mörgum liðanna í Belgíu, meðal annars nokkra hjá Lokeren. Bókhald Lokeren var tekið til rannsóknar í síðustu viku.

Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður er leikmaður Lokeren sem er næstneðst af sextán liðum í belgísku A-deildinni og hefur aðeins unnið einn af fyrstu ellefu leikjum sínum. Arnar Þór Viðarsson er aðstoðarþjálfari liðsins og það kemur í hans hlut að stjórna æfingu liðsins á morgun.

mbl.is