Robben er hættur

Arjen Robben með verðlaunaskjöldinn eftir sigur Bayern München í þýsku …
Arjen Robben með verðlaunaskjöldinn eftir sigur Bayern München í þýsku 1. deildinni í vor. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Arjen Robben tilkynnti í dag að hann hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Robben yfirgaf þýska meistaraliðið Bayern München þegar samningur hans við félagið rann út en hann lék með Bayern í tíu ár.

Robben, sem er 35 ára gamall, lék 606 leiki og skoraði 210 mörk á 19 ára ferli sínum sem atvinnumaður. Hann hóf ferilinn með Groningen árið 2000 og lék svo með PSV, Chelsea, Real Madrid og Bayern München. Robben lék 96 leiki með hollenska landsliðinu og skoraði í þeim 37 mörk.

Robben varð hollenskur meistari með PSV, tvívegis Englandsmeistari með Chelsea, vann Spánarmeistaratitilinn einu sinni með Real Madrid og hampaði þýska meistaratitlinum átta sinnum með Bayern München auk þess að vinna Meistaradeildina einu sinni með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert