Zlatan-stytta afhjúpuð í Malmö

Styttan af Zlatan Ibrahimovic.
Styttan af Zlatan Ibrahimovic. AFP

Þúsundir stuðningsmanna sænska knattspyrnuliðsins Malmö voru mættir fyrir utan Malmö Stadium í dag þegar 2,70 metra há bronsstytta af Zlatan Ibrahimovic var afhjúpuð.

Zlatan hóf sinn magnaða knattspyrnuferil með Malmö fyrir tæpum 20 árum síðan en hann leikur nú með bandaríska liðinu LA Galaxy.

Styttan sýnir Zlatan fagna einu af sínum mörgum mörkum með sænska landsliðinu og líklega því fallegasta sem hann skoraði með hjólhestaspyrnu gegn Englendingum árið 2012 en hann skoraði öll fjögur mörk Svía í þeim leik.

„Það voru ekki margir sem trúðu því að ég myndi ná árangri en svo lengi sem þú leggur hart að þér og hefur trú á sjálfum þér þá getur þú það. Fyrst ég gat náð árangri þá geta það allir,“ voru skilaboðin frá Zlatan þegar hulunni var svipt af styttunni.

Zlatan er 38 ára gamall sem skoraði 62 mörk í 116 leikjum með sænska landsliðinu. Hann hefur spilað með mörgum af stærstu og bestu liðum heims og þar má nefna Juventus, Barcelona, Manchester United og Paris SG. Hann vann titla með öllum þessum félögum.

Zlatan Ibrahimovic við hlið styttunnar.
Zlatan Ibrahimovic við hlið styttunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert