Helgi stýrði Liechtenstein til sögulegs sigurs

Helgi Kolviðsson var áður aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins.
Helgi Kolviðsson var áður aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Liechtenstein, undir stjórn Helga Kolviðssonar, vann í kvöld útisigur á Lúxemborg, 2:1, en þjóðirnar mættust í vináttulandsleik karla í knattspyrnu á þjóðarleikvanginum í Lúxemborg.

Sigurinn er sögulegur fyrir Liechtenstein en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem landsliðið vinnur tvo leiki í röð, frá því það varð aðildarþjóð FIFA og fór að spila landsleiki árið 1993.

Fabio Wolfinger og Nicholas Hasler komu Liechtenstein í 2:0 áður en Gerson Rodrigues minnkaði muninn fyrir Lúxemborgara.

Helgi og hans menn eru á leið í tvo heimaleiki í Þjóðadeild UEFA en þeir taka á móti Gíbraltar á laugardaginn og San Marínó næsta þriðjudag. Liechtenstein vann San Marínó 2:0 á útivelli í fyrsta leik riðilsins í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert