„Ég er svolítið verkjaður og dálítið skrítinn. Mér líður eins og ég sé hálf skakkur einhvern veginn,“ sagði Adam Árni Andersen, leikmaður Grindavíkur í knattspyrnu, eftir að hann gekkst undir skurðaðgerð vegna kjálkabrots.
Adam Árni kjálkabrotnaði í upphafsleik 1. deildarinnar síðastliðinn miðvikudag þegar hann fékk harkalegt olnbogaskot í andlitið frá leikmanni Fjölnis.
„Ég fór í aðgerð á föstudaginn og hún heppnaðist vel að ég held. Það voru settar tvær plötur og einhverjar sex skrúfur og svo var þessu einhvern veginn tjaslað saman,“ sagði Adam Árni er mbl.is náði tali af honum um helgina.
Beðinn um að lýsa því sem gerðist er Adam Árni kjálkabrotnaði sagði hann:
„Við erum í einhverjum kýtingum og svo kemur fyrirgjöf. Boltinn er á leiðinni og mín hugmynd var að taka skrefið fram fyrir hann.
Hann var hættur að fylgjast með mér og ég ætlaði að reyna að skjótast fram fyrir hann en svo setur hann báðar hendurnar þvílíkt langt út og ég kemst aldrei í neina snertingu við boltann.
Ég steinligg og það beint fyrir framan nefið á dómaranum, sem mér finnst mjög skrítið. Ég veit ekki hversu oft maður hefur verið með mann í bakinu og stjórn á boltanum og slengir kannski olnboganum óvart í hausinn á næsta manni.
Þá er venjan að dæma aukaspyrnu og gult spjald. Ég var inni í vítateig, hann skallar boltann frá og tekur mig í leiðinni og ekkert dæmt. Mér finnst það einkennilegt. Svo þarf ágætis högg til að maður kjálkabrotni.“
Upphaflega hélt Adam Árni að hann hafi einungis misst tönn og var það sömuleiðis fyrst tilfinning bæði sjúkraþjálfara og lækna. Annað kom í ljós þegar betur var að gáð.
„Ég ligg og sjúkraþjálfarinn kemur. Það bara blæðir og blæðir. Ég fikta í þessu með tungunni og mín tilfinning er sú að það hafi farið tönn í neðri kjálka, hún hafi bara dottið út í heilu lagi vegna þess að bilið var þannig.
Sjúkraþjálfarinn skoðar mig og segir að það vanti tönn og ég hugsa með mér: „Tönn, það skiptir ekki máli. Það er ekkert hægt að gera í því núna. Stoppum blæðinguna og áfram með þetta.“
Svo stoppaði ekkert blæðingin þannig að ég þurfti að láta kíkja á þetta. Fyrstu viðbrögð hjá þeim á spítalanum voru að tönnin væri farin. Ég var samt búinn að kvarta yfir því að ég væri hálf verkjaður.
Svo hreinsa þeir þetta og skoða og sjá að það vantar enga tönn, kjálkinn gliðnaði bara í sundur,“ útskýrði Adam Árni.
Sóknarmaðurinn reiknar með því að vera frá keppni fram í ágúst, þegar tekið verður að síga á seinni hlutann á tímabilinu í 1. deildinni.
„Þetta verða einhverjir þrír mánuðir sem það má ekki koma neitt högg á kjálkann. Við verðum bara að vona að strákarnir standi sig og komist alla leið í úrslitakeppnina til þess að maður fái einhverja leiki í sumar.
Það sem ég hef heyrt er að þetta séu þrír mánuðir án þess að fá högg. Maður er kannski ekki að taka sénsinn á því að spila einhverja leiki og vonast til þess að maður fái ekki högg. Sérstaklega miðað við hvernig línan er hjá dómurunum.“
Snúi Adam Árni aftur í byrjun ágúst gæti hann náð síðustu sjö leikjum deildarinnar auk leikja í úrslitakeppni fari svo að Grindavík verði í efri hlutanum og komist þannig í umspil um laust sæti í Bestu deildinni.
„Ég vona það. Maður verður bara að lyfta og ég get náttúrlega gert allan andskotann eftir tvær vikur. Mín lífsgæði verða þannig að það verður allt í góðu. Ég á að geta farið að hlaupa og kannski verið með í sendingaæfingum eftir nokkrar vikur.
Maður getur því haldið sér í formi en er ekki að fara að skalla einhverjar fyrirgjafir, fara upp í skallabolta eða taka þátt í einhverju sem felur í sér mikla snertingu. Ég held að það sé ekki sniðugt,“ sagði Adam Árni að lokum í samtali við mbl.is.