„Ég er búin að eyðileggja Ísland“

„Ég tók ákvörðun um að afskrifa árið 2020,“ sagði knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í Dagmálum.

Andrea Rán, sem er 28 ára gömul, snéri heim til Íslands á dögunum og gekk til liðs við FH í Bestu deildinni eftir mikið heimshornaflakk á síðustu árum.

Neikvæð á landamærunum

Andrea Rán smitaðist af kórónuveirunni árið 2020 en fékk neikvætt úr skimunarprófi á landamærunum þegar hún kom til Íslands frá Bandaríkjunum þar sem hún hafði nýlokið fjögurra ára háskólanámi.

Hún lék tvo leiki með Breiðabliki áður en í ljós kom að hún væri með kórónuveiruna en hún var nafngreind í fjölmiðlum sem sá einstaklingur sem hefði smitað aðra leikmenn í efstu deildum karla og kvenna.

Spennt að koma heim

„Ég var mjög spennt að koma heim og spila minn fyrsta leik fyrir Breiðablik í langan tíma,“ sagði Andrea Rán.

„Vinkona mín, sem skutlaði mér á flugvöllinn, sendi mér skilaboð og tjáir mér það að hún sé smituð af kórónuveirunni. Ég hef þá samband við smitrakningateymið, fer í próf og þá kemur í ljós að ég er smituð af veirunni.

Þetta var svakalegt mál. Ég er búin að eyðileggja Ísland hugsaði ég með mér. Ég kem klárlega sterkari út úr þessari lífsreynslu en ég hefði alveg viljað sleppa við þetta líka,“ sagði Andrea Rán meðal annars.

Viðtalið við Andreu Rán í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert